Fréttir

21.11.2008

Austfirsk jólatré fara víða

  • frett_21112008

Nú er aðeins rúm vika í fyrsta sunnudag í aðventu og skógarverðir um allt land eru farnir að undirbúa jólin.

Skógarvörðurinn Þór Þorfinnsson á Hallormsstað hefur, ásamt samstarfsfólki sínu, valið og fellt allnokkur stór barrtré á síðustu dögum. Þetta eru annasamir tímar þar á bæ, því mörg sveitafélög kjósa stór, íslensk jólatré á torg sín og trén úr Hallormsstaðaskógi fara víða. „Já, það er mikið að gera,” segir Þór. „Búið er að keyra flest öll torgtré út á staðina,enda kveikja sveitarfélög flest á sínum trjám 1. desember eða fyrstu helgi í aðventu.”

Í öllum byggðarkjörnum Fjarðabyggðar verða tré úr Hallormsstaðaskógi, nema í Mjóafirði en jólatréð þar kemur frá Hjallaskógi á Neskaupstað. „Torgtrén í Fjarðarbyggð eru flest sótt í tvo reiti í skóginum,” segir Þór. „Um er að ræða sitkagreni frá árinu1979 og rauðgreni gróðursett árið 1970. Trén eru öll mjög svipuð á hæð, á bilinu 7-9 metrar. Ekki er búið að fella jólatréð sem reist verður við Kaupfélag Héraðsbúa en það verður gert á næstu dögum. Það tré er um þrjátíu ára gamalt sitkagreni.”

Jólatré úr Hallormsstaðaskógi fara víða um land. „Til  Dalvíkurbyggðar fer eitt tíu metra hátt rauðgreni, Fljótsdalshérað sendir sex metra háan fjallaþin til vinabæjarins í Færeyjum og forsetaembættið hefur um áraraðir  fengið tvo fjallaþini úr skóginum til setja við Bessastaði, svo eitthvað sé nefnt,” segir skógarvörðurinn Þór.

En það eru ekki aðeins sveitafélög sem kaupa tré úr Hallormsstaðaskógi. „Heimilistrén eru seld hér fyrir austan og á Norðurlandi. Hugsanlega fara líka einhver tré til Reykjavíkur. Íbúum á svæðinu gefst kostur á að koma í skóginn sunnudaginn 14. desember frá 13:00 – 16:00 til að velja sér og saga sitt eigið tré.”

Kveikt verður samtímis á öllum jólatrjánum í Fjarðabyggð og jólatrénu við Kaupfélag Héraðsbúa, þ.e. laugardaginn 29. nóvember kl. 16:00.
banner1