Fréttir

05.11.2008

Hvernig myndast árhringir í trjám?

Rétt undir berki trjáa er lag af frumum sem kallað er vaxtarlag. Á hverju sumri skipta þessar frumur sér og mynda nýjar sáld- og viðaræðafrumur. Á þennan hátt gildnar trjábolurinn á hverju ári.

Fyrripart sumars er vöxtur hraður og nýju viðaræðafrumurnar sem myndast eru stórar og víðar. Seinnipart sumars hægir á vextinum og frumur sem þá myndast eru þrengri og hafa tiltölulega þykka frumuveggi.

Þegar skorið er þversnið af trjábol sést litamunur á snemmsumarsvexti og síðsumarsvexti. Síðsumarsvöxturinn er dekkri af því að holrými frumnanna eru minni og frumuveggirnir þykkri. Á hverju ári myndast því hringur af ljósum frumum og hringur af dökkum frumum. Þetta köllum við árhringi.

 

Byggt á svari Þrastar Eysteinssonar, sviðsstjóra þjóðskóganna hjá Skógrækt ríkisins, á Vísindavef Háskóla Íslands.

 
banner1