Fréttir

24.10.2008

Leitin að hæsta trénu

Eitt af því sem skógarmönnum finnst hvað mest gaman er að mæla tré og fylgjast þannig með vexti þeirra. Það er eins og að fylgjast með vexti barnanna og því eru trén mæld með reglulegu millibili. Árið 1995 náði lerkitré í Hallormsstaðaskógi 20 metra hæð, fyrst trjáa á Íslandi frá því fyrir Ísöld. Síðan hafa trén verið mæld reglulega og alltaf hækka tölurnar. Nú er spurningin hvort til sé tré á Íslandi sem náð hefur 25 metra hæð?

Sérfræðingar, skógræktarráðunautar og skógarverðir í hverjum landshluta hafa undanfarið verið að mæla tré í leit að hæsta tré landsins og hæstu trjám helstu tegunda sem hér vaxa. Tölur eru farnar að berast í hús og eru þær margar áhugaverðar. Til dæmis hefur þegar komið í ljós að 6 trjátegundir (rússalerki, alaskaösp, sitkagreni, blágreni, evrópulerki og stafafura) hafa náð meira en 20 metra hæð á Íslandi og þrjár í viðbót (rauðgreni, dögglingsviður og álmur) yfir 19 metra hæð.

Enn er verið að mæla og beinist leitin helst að alaskaösp og sitkagreni.
banner1