Fréttir

16.04.2010

Starfsfólk frá vinnu vegna eldgoss

  • frett_16042010_1
    Mynd: Vilhelm Gunnarsson

Eldgosið í Eyjafjallajökli hefur sett strik í reikninginn fyrir starfsfólk Suðurlandsdeildar Skógræktar ríkisins. Eftir að eldgos hófst á ný í Eyjafjallajökli hinn 14. apríl eftir stutt goshlé, var leiðinni inn í Fljótshlíð lokað vegna flóðahættu og engum hleypt þar í gegn. Opnað var fyrir umferð daginn eftir og er starfsemi komin í eðlilegt horf. Samkvæmt upplýsingum frá fyrrum starfsmanni Skógræktar ríkisins lenti skógræktarfólk í Fljótshlíðinni síðast í vandræðum í Heklugosinu árið 1947 þegar það var á leið til vinnu í Múlakoti. Þá urðu vegir ófærir vegna öskufalls í hlíðinni, enda varð öskulagið þá tugir cm á þykkt. Skógræktarfólk vonast til að sem minnstar skemmdir verði vegna vatnavaxta og öskufalls á næstu dögum og vikum.

Rétt er að geta þess að skógræktarfólk kenst ekki inn í Þórsmörk og Goðaland, en landslag er orðið mjög breytt við Gígjökul og þarf að leggja þar nýjan veg þegar um hægist. Á næstu vikum stendur til að hefja miklar stígaviðgerðir í Goðalandi og Þórsmörk til að hægt verði að taka á móti öllum þeim ferðamannastraumi sem vænta má á næstu misserum til að skoða gosstöðvarnar.


Texti: Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi

Mynd: Vilhelm Gunnarsson, Fréttablaðinu
banner2