Fréttir

19.09.2008

Sést á árhringjum gamalla trjá hvort þau hafa skaðast á sínum fyrstu uppvaxtarárum?

Skaðist tré á sínum fyrstu uppvaxtarárum kemur það gjarnan fram en það fer eftir eðli og umfangi skemmdanna hversu auðvelt er að greina skaðann í árhringjum. Einhverjir algengustu skaðar á ungum trjám á Íslandi eru vegna beitar, kals eða saltskemmda. Skemmdir af þeim völdum leiða til þess að toppsproti trjánna drepst. Þá tekur gjarnan hliðargrein neðar á stofninum við og myndar nýjan topp en gamli toppurinn visnar og brotnar af. Slíka skemmd er aðeins hægt að greina í þeirri hæð sem hliðargreinin tók til við að mynda nýjan topp. Það þarf því að saga trjástofn á nákvæmlega réttum stað til að finna slíka skemmd.

Skemmdir á berki, til dæmis vegna skafrennings eða vegna dreps sem getur orðið út frá sárum, er auðveldara að greina í árhringjum einkum ef skemmdirnar ná yfir meira lengdarbil á stofninum. Slíkar skemmdir lýsa sér gjarnan sem svört strik í þversniðum eða jafnvel sem mikil óregla í árhringjunum ef sárið hefur verið stórt.

 

Byggt á svari Þrastar Eysteinssonar, sviðsstjóra þjóðskóganna hjá Skógrækt ríkisins, á Vísindavef Háskóla Íslands.
banner3