Fréttir

08.09.2008

Lettar í heimsókn

  • frett_08092008_2

Við kaffidrykkju á ráðherrafundi um vernd skóga í Evrópu, sem haldinn var í Varsjá í nóvember s.l., spurði Janis Kinna, skógræktarstjóri Lettlands íslensku sendinefndina hvort ekki væri hægt að skipuleggja heimsókn lettneskra skógarmanna til Íslands. Hjá þeim væri mikill áhugi á að skoða fyrsta landið sem viðurkenndi sjálfstæði þeirra og ekki síst að sjá hvernig gengi að stunda skógrækt í skóglausu landi. Heimsóknin var skipulögð og komu 23 starfsmenn ríkisskógræktar Lettlands í vikuferð hingað 24.-30. ágúst.

Á þessum dögum heimsótti hópurinn Mógilsá, Þingvelli, Suðurlandsskóga og Skógræktarfélag Árnesinga á Snæfoksstöðum, Haukadal, Gróðrarstöð Barra og Lýðveldislundinn á Tumastöðum, Landgræðsluna og Hekluskóga. Auk þess var Hellisheiðavirkjun skoðuð, farið var í hvalaskoðun (5 höfrungar og 4 hrefnur sáust) og Bláa lónið.

Á meðan hópurinn dvaldi á Íslandi var hvað mest um að vera vegna heimkomu handboltalandsliðsins frá Ólympíuleikjunum og nutu þau þess ekki síður en Íslendingar þar sem þeirra maður, Alexander Peterson, var þar á meðal með silfurpening um hálsinn.

Ekki var annað að sjá en að hópurinn hafi haft bæði gagn og gaman af ferðinni. Undir lokin var íslenskum skógarmönnum boðið að endurgjalda heimsóknina og verður vonandi af því innan tveggja ára. Skógrækt ríkisins færir öllum þeim sem tóku á móti kollegum okkar frá Lettlandi kærar þakkir.


Meðfylgjandi mynd var tekin í skoðunarferð hópsins við Gullfoss.
banner3