Fréttir

19.08.2008

Af hverju er eyðing skóga talin vera alvarlegt vandamál?

Þýðing skóga fyrir mannkynið og reyndar allt líf á jörðinni er svo mikil og margslungin að ógjörningur er að telja allt upp. Sem dæmi má þó nefna að skógar framleiða stóran hluta súrefnisins í andrúmsloftinu, eru mikilvægir í að viðhalda stöðugleika í veðurfari, skapa jarðveg og koma í veg fyrir jarðvegsrof og eru heimili fjölda lífverutegunda sem ekki gætu lifað utan skóga.

Sem auðlind hafa skógar gífurlega efnahagslega þýðingu og eru undirstaða mjög stórs hluta hagkerfis margra landa. Þær þjóðir sem ekki hafa skóga neyðast til að flytja inn allar skógarafurðir, svo sem pappír og byggingartimbur. Líf eins og við þekkjum það, bæði lífið á jörðinni og efnahagslíf mannsins, væri óhugsandi án skóga. Þess vegna er skógareyðing alvarlegt vandamál gangi hún of langt, en slíkt gerðist einmitt á Íslandi og
leiddi af sér örbirgð.

Eyðing er það kallað þegar skógur hverfur af tilteknu landsvæði til lengri tíma, til dæmis þegar skógur vex ekki aftur eftir skógarhögg vegna breyttrar landnýtingar. Það telst ekki eyðing ef séð er til þess að skógur vaxi aftur upp eftir skógarhögg.

Talsverð skógareyðing á sér stað í heiminum en þó ekki um heim allan. Í Evrópu og Norður-Ameríku hefur skógarþekja reyndar aukist á síðustu 50 árum en víðast í Mið- og Suður-Ameríku, Afríku og Suðaustur-Asíu hefur þekja skóglendis dregist saman, einkum af því að skóglendi hefur verið tekið til landbúnaðarnota. Þetta er talið vandamál, einkum af því að þarna er verið að eyða búsvæðum margra lífvera sem eru í útrýmingarhættu. Í framhaldi af skógareyðingu verður svo oft jarðvegsrof sem spillt getur lífi í ám og vötnum og leiðir að lokum til eyðimerkurmyndunar.

 

Byggt á svari Þrastar Eysteinssonar, sviðsstjóra þjóðskóganna hjá Skógrækt ríkisins, á Vísindavef Háskóla Íslands.
banner1