Fréttir

30.06.2008

Birkismuga - nýtt meindýr á birki

  • frett_30062008

Sérfræðingar á Mógilsá hafa fengið þó nokkrar fyrispurnir um skemmdir á birki á höfuðborgarsvæðinu sem lýsa sér í brúnum blöðum trjánna. Fyrstu athuganir benda til þess að hér sé um að ræða fiðrildategund sem hefur fengið íslenska heitið birkismuga (Eriocrania unimaculella). Skemmda af völdum birkismugunnar varð fyrst vart í garði í Hveragerði sumarið 2003. Þaðan breiddist birkismugan út og voru talsverðar skemmdir af völdum hennar í Hveragerði sumarið 2007 og nú eru greinilegar skemmdir í Fossvogskirkjugarði og Fossvogsdal. Það er lirfa birkismugunnar sem étur upp blöð birkitrjáa en skemmdirnar á blöðunum eru hins vegar talsvert ólíkar þeim sem aðrir skaðvaldar, t.d. vefara- og fetalirfur, valda.

Kvendýrið verpir eggjum sínum undir yfirhúð laufblaða þar sem eggin klekjast svo út. Lirfan éta laufblaðið svo innan frá þannig að blaðið verður brúnleitt og hálfgegnsætt. Þegar lirfurnar eru orðnar nógu stórar yfirgefa þær blaðið, síga niður í jarðveginn og púpa sig þar. Fiðrildið liggur í dvala sem púpa yfir veturinn sem klekjast út á vorin. Fiðrildið flýgur svo af stað í leit að birkiblaði til að verpa í. Afleiðingarnar eru þær að blöðin verða brúnleit og hálf-gegnsæ, enda er blaðholdið sem á heilbrigðum blöðum heldur efra og neðra borðinu saman alveg horfið. Ef blaðið er tekið og skoðað vel, sjást lirfurnar auðveldlega innan í blaðinu. Einnig má sjá svartar trefjar sem ganga aftan úr lirfunni, og sjást trefjarnar eftir að lirfan hefur yfirgefið blaðið.

Birkismuga tilheyrir hópi meindýra sem kölluð hafa verið gangafluga. Gangafluga hefur verið notað yfir þau skordýr sem haga sér með svipuðum hætti og birkismugan, þ.e. verpa eggjum undir yfirhúð laufblaðanna og lirfurnar éta svo innihaldið í laufblöðunum. Á heimsvísu er mikill fjöldi gangafluga, eða um 10 þúsund tegundir. Þessar tegundir tilheyra fjórum ættbálkum, bjöllum (Coleoptera), æðvængjum (Hymenoptera), tvívængjum (Diptera) og fiðrildum (Lepidoptera), en flestar tegundir finnast innan fiðrildaættbálksins. Gera má ráð fyrir að einungis sé búið að lýsa hluta gangflugna og því séu í raun mun fleiri tegundir sem tilheyra þessum hóp.
banner1