Fréttir

28.04.2008

Birkisafinn flæðir

  • frett_28042008(1)

Fyrsti sumardagur er nú kominn og farinn, en þótt dagatalið gefi til kynna að vorið sé komið er enn snjór í Haukadalsskógi.  Þrátt fyrir snjóinn eru birkitrén farin að vakna til vorsins. Í fyrra gerði Suðurlandsdeild Skógræktar ríkisins tilraun með að ná safa úr birkitrjám. Var safinn drukkinn beint, notaður við eldamennsku og soðinn niður í sýróp. Best þótti birkisýrópið og var það sérlega gott ofaná vanilluís.

Samkvæmt heimildum hefur birkisafi góð áhrif á blóðþrýsting, jafnar blódflædi og dregir úr álagi á nýrun. Hann virkar einnig mjög vel gegn liðvandamálum vegna þess að hann er bólgueyðandi og fjarlægir þvagsýru. Hann hefur og áhrif á gigt þar sem hann er í senn bólgueyðandi og blóðhreinsandi. Birkisafi dregur úr vöðvakrampa og fjarlægir eiturefni úr lidum.

Nú var ákveðið að endurtaka safatöku úr birki í Haukadal og eru trén farin að dæla safanum upp þrátt fyrir snjóinn. Ekki hefur safi byrjað að flæða í öllum trjánum en sum eru þó að nálgast framleiðslu uppá um 5 lítra á dag. Síðan verða gerðar tilraunir með að gera birkisorbet ís og birkivín.

Trén sem notuð eru eru 65 ára gömul og a.m.k. 20 cm í þvermál í brjósthæð. Minni tré gefa einnig safa en ekki eins mikinn. Tímabilið sem safinn rennur er um 30 dagar áður en trén laufgast. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd bora skógarmenn í trén til að ná safanum, en einnig er það hægt með því að saga af greinar. Safatakan skaðar ekki trén, því holunum verður síðan lokað. Svo er hvert tré hvílt í 1-2 ár áður en safi er tekinn úr því aftur.

Nánari upplýsingar gefa Einar Óskarsson eða Morten Leth hjá Skógrækt ríkisins á Suðurlandi.
banner1