Fréttir

21.04.2008

Veturinn í skóginum

  • frett_21042008(1)

Vetursins 2007-2008 verður eflaust minnst fyrir tíð hvassviðri og mikinn snjó á sunnanverðu landinu. Stormar vetrarins gerðu vart við sig í skógunum og eftir veturinn má á nokkrum stöðum sjá brotin tré og tré sem rifnuðu upp með rótum. Var það einkum í eldri reitum sem nýverið voru grisjaðir en í heildina ekki mörg tré sem fórust. Þetta undirstrikar þó að skógarnir okkar hækka stöðugt í loftinu og eftir því sem tíminn líður og trén taka á sig meiri vind verður stormfall algengara. Því er nauðsynlegt að grisja tímanlega og varlega til að draga úr stormsköðum eins og hægt er.

Snjóalög voru óvenjumikil og langvarandi á Suðurlandi og olli það töfum við grisjun. Þá er viðbúið að nokkuð verði um snjóbrot í ungum teigum, eitthvað sem Norðlendingar kannast vel við frá fyrri tíð. Snjóalög voru ekki meiri en oft áður á Norðurlandi og á Austurlandi var veturinn ekki snjóþungur. Hitafar vetrarins var nokkuð stöðugt og án ótímabærra hlýindakafla sem hafa hrekkt okkur undanfarin ár. Því er ólíklegt að teljandi kalskemmdir verði þetta vor.banner2