Fréttir

02.03.2010

Aftur kynt með eldiviði

  • frett_01032010

Verið er að stækka dreifikerfi Skógarorku ehf á Hallormsstað með því að tengja Hússtjórnarskólann við kyndistöðina. Í hlýindakaflanum í janúar gróf Sveinn Ingimarsson, jarðvinnu- og skógarverktaki, fyrir lögnum ásamt því að draga þær út en Valdimar Benediksson sá um að tengja þær saman. Míla hf nýtti tækifærið og skellti nýjum símalínum ofan í skurðinn þegar hann var tilbúinn.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Hússtjórnarskólinn er hitaður upp með timbri en upphaflega var hann kyntur með birki úr skóginum. Hrafn Sveinbjarnarson (1913-1988) fluttist frá Reyðarfirði til Hallormsstaðar 1932 og hóf þá störf sem kyndari Hússtjórnarskólans. Á fjórða áratugi síðustu aldar tók skólinn 500 hestburði af eldivið  og var þá stærsti einstaki aðilinn sem fékk eldivið úr skóginum. Viðarkyndingin lagðist af á fimmta áratug tuttugustu aldar eftir endurbætur á hitakerfi skólans. Árið 1936 var staðaráin virkjuð og framleiddi hún rafmagn fyrir skólann. Þetta var rennslisvirkjun, hönnuð af Sigurði Thoroddsen og Jakobi Gíslasyni með 190 metra fallhæð sem var það mesta sem þekktist á þeim  tíma. Mikill grjótburður við vatnsinntakið gerði það að verkum að Hrafn þurfti stundum daglega að hlaupa upp í fjall til að hreinsa frá. Árið 1955 var virkjunin aflögð og var orkuþörf skólans fullnægt með olíu og rafmagni en árið 1961 tengdist skólinn dreifikerfi RARIK. Það má því segja að eftir 80 ár sé Hússtjórnarskólinn nú kominn á byrjunarreit hvað varði kyndingu.


Mynd: Bergrún Þorsteinsdóttir, aðstoðarskógarvörður Skógræktar ríkisins á Hallormsstað
Texti: Skógarorka
banner4