Fréttir

15.02.2008

Til hamingju með afmælið

Þann 15. febrúar 1908 var Agner F. Kofoed-Hansen settur í embætti skógræktarstjóra fyrstur manna. Þar með hófst starfsemi Skógræktar ríkisins og því má með sanni segja að stofnunin sé 100 ára í dag.

Skógræktarfólk er gjarnt á að halda uppá afmæli og þessi árin koma aldarafmælin á færibandi. Árið 1999 var haldið uppá að 100 ár voru liðin frá upphafi gróðursetningar til Furulundarins á Þingvöllum, sem við köllum upphaf skipulegrar skógræktar hér á landi. Árið 2003 var hundrað ára afmæli gróðrarstöðvarinnar á Hallormsstað og 2005 var haldið uppá aldarafmæli friðunar Hallormsstaðaskógar, fyrst landsvæða á Íslandi sem var friðað í náttúruverndarskyni. Árið 2006 varð Gamla Gróðrarstöðin aldargömul, en þar hafa Skógrækt ríkisins og Norðurlandsskógar nú skrifstofur sínar á Akureyri. Í fyrra var haldið uppá aldarafmæli laga um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands, sem mörkuðu upphaf skógræktar og landgræðslustarfs á vegum íslenska ríkisins. Nú er það aldarafmæli Skógræktar ríkisins og næsta ári verða síðan 100 ár liðin frá friðun Vaglaskógar, en þar með mun 10 ára langri aldarafmælislotu ljúka.

Skógrækt ríkisins óskar starfsfólki sínu og landsmönnum öllum til hamingju með daginn.
banner3