Fréttir

23.01.2008

Skógrækt ríkisins óskar eftir ráða kynningarstjóra

Skógrækt ríkisins óskar eftir ráða kynningarstjóra til starfa á aðalskrifstofu stofnuninnar á Egilsstöðum.

Skógrækt ríkisins er þekkingar-, þróunar-og þjónustuaðili sem vinnur með og fyrir stjórnvöld, almenning og aðra hagsmunaaðila að rannsóknum, ráðgjöf og þekkingarmiðlun á sviði skógræktar.  Þá er stofnunin í forsvari fyrir Íslands hönd í erlendu samstarfi á sviði skógræktar.

Ábyrgð og verksvið:

 • Umsjón með kynningarmálum, almannatengslum og vef Skógræktar ríkisins.
 • Ábyrgð á að starfsemi og stefna í kynningarmálum og útgáfu samrýmist stefnu Skógræktar ríkisins.
 • Kynningarstjóri vinnur verkefni sín í nánu samráði við skógræktarstjóra og yfirstjórn stofnunarinnar.
 • Næsti yfirmaður kynningarstjóra er skógræktarstjóri.

Helstu verkefni eru:

 • Að annast kynningarmál stofnunarinnar, ritun og ritstjórn kynningarefnis og fréttatilkynninga og dreifingu efnis.
 • Umsjón og ritstjórn vefsíðu stofnunarinnar, þróun hennar og viðhald.
 • Samskipti við auglýsingastofur, hönnuði og prentsmiðjur.
 • Öflun og viðhald tengsla við fjölmiðla, ferðamálaiðnaðinn, menningarlífið og atvinnulífið.
 • Samskipti við starfsfólk Skógræktar ríkisins og helstu samstarfsaðila skógræktargeirans á Íslandi.

Kynningarstjóri tekur jafnframt þátt í öðrum verkefnum sem heyra undir framkvæmdaráð Skógræktar ríkisins, s.s. þróun og kynningu á almennri og sérsniðinni þjónustu stofnunarinnar og verkefni tengd útgáfu, sýningum, viðburðum og annarri miðlun.

Menntun og reynsla:

 • Menntun sem nýtist í starfi, svo sem háskólapróf á sviði kynningar- eða markaðsfræða, fjölmiðlunar, íslensku, tungumála eða menningartengdum greinum.
 • Reynsla af kynningar- og markaðsstarfi.
 • Reynsla af vefsíðugerð, vefmiðlun og útgáfumálum.
 • Mikil færni í íslensku, ensku og einu Norðurlandamáli, jafnt töluðu sem rituðu máli.
 • Reynsla af ritun texta.
 • Reynsla af verkefnisstjórnun æskileg.

Eiginleikar:

 • Mikil hæfni í mannlegum samskiptum, samstarfslipurð og þjónustulund.
 • Frumkvæði og hugmyndaauðgi.
 • Sjálfstæði í starfi og öguð vinnubrögð.

Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags og fjármálaráðherra.  Um er að ræða fullt starf og þarf viðkomandi að geta hafið störf 1. maí n.k.  Við ráðningar í störf er tekið mið af jafnréttisáætlun stofnunarinnar.

Umsóknarfrestur er til og með 1. mars n.k..  Umsóknir með ferilskrá, afritum prófskírteina og meðmælum/upplýsingum um meðmælendur berist aðalskrifstofu Skógræktar ríkisins Miðvangi 2-4 Egilsstöðum.  Upplýsingar veitir Jón Loftsson skógræktarstjóri í síma 471-2100 og GSM 894-9530 eða á netfanginu jonlof[hjá]skogur.is.
banner3