Fréttir

11.02.2010

Lerki í gestastofu

  • frett_11022010(3)

Starfsfólk Skógræktar ríkisins á Hallormsstað er nú að fletta lerki sem notað verður í gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs að Skriðuklaustri.

Haldin var hönnunarsamkeppni árið 2008 og var það tillaga Arkís sem bar sigur úr bítum. Í hönnuninni er lögð áhersla á að hlykkjótta línur, langir bogar og önnur óregluleg lögun jökulsins endurspeglist í gestastofunni. Frumöflin eldur, ís, vatn og vindur eru meginþema stofunnar og form byggingarinnar innblásið af eilífum sköpunarmætti jökulsins; hvernig hann ýmist brýtur sér leið í gegnum landið eða hopar.

Lerki er eitt þeirra efna sem verður mjög sýnilegt í byggingunni. Timburklæðning úr lerki verður fléttuð inn í steypuveggfleti, bæði á byggingunni sjálfri og við aðkomu. Í lýsingu arkítektanna segir: „Gestastofan að Skriðuklaustri sækir hughrif til Gunnarshúss sem er skammt undan. Notuð eru byggingarefni frá staðnum, þ.e lerki og gras á þaki og hleðslur í lóð hlaðnar úr heimafengnu grjóti. Skógarnir í nágrenni stofunnar verða sýnilegi í ásýnd hússins."

Skóflustunga að gestastofunni var tekinn þann 16. apríl 2009 og er áætlað að hún verði opnuð í byrjun júní.

Á Vöglum er nú einnig verið að fletta lerki sem verður notað í merkingar um allan Vatnajökulsþjóðgarð.

frett_11022010(1)

frett_11022010(2)


Texti: Esther Ösp Gunnarsdóttir, kynningarstjóri Skógræktar ríkisins
Myndir: Arkís
banner1