Fréttir

18.01.2010

Vaxandi vinsældir veiðileyfavefsins rjúpa.is

  • frett_18012010
    Mynd: rjúpa.is

Skógráð ehf og Austurnet ehf, hönnuðu í samvinnu við Skógrækt ríkisins, sölukerfið sem var opnað til reynslu á rjúpnaveiðitímabilinu haustið 2008. Í byrjun eru í boði veiðileyfi á völdum jörðum í eigu Skógræktar ríkisins.

Í gegnum sölukerfið á vefnum, rjúpa.is, geta veiðimenn keypt veiðileyfi á rafrænan hátt. Á vefnum koma fram stærð og mörk veiðisvæðis á korti. Enn fremur er hægt að hlaða niður mörkum einstakra veiðisvæða á Garmin GPS-tæki. Takmarkaður fjöldi veiðileyfa er seldur á hvert svæði, sem kemur í veg fyrir að of margir gangi til rjúpna á sama veiðisvæðinu samtímis. Til að kaupa veiðileyfi þarf að tilgreina veiðikortanúmer sem verður borið saman við gagnagrunn veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar. Enn fremur er ætlast til þess að veiðimenn skili inn veiðitölum rafrænt að veiði lokinni. Með því móti hjálpa þeir til við að safna upplýsingum um stærð og viðgang rjúpnastofnsins.

Vefurinn hefur nú verið starfræktur í tvö ár og seldust veiðileyfin eins og heitar lummur. Alls seldust um 270 veiðileyfi að þessu sinni og er því um að ræða 80% aukningu á milli ára. Að þessu sinni bættust við þrjú ný veiðisvæði: Skuggabjargar- og Melaskógur í Fnjóskadal, Jórvík í Breiðdal og Neðridalur í Biskupstungum. Alls var því hægt að kaupa veiðileyfi á sjö svæðum á landinu þetta árið. Miklar endurbætur voru gerðar á sölukerfinu en allar greiðslur fara nú samstundis í gegn sem kreditkortagreiðslur hjá Borgun hf.


Mynd: rjúpa.is
banner4