Fréttir

21.04.2009

Skógarnir halda meginlöndunum rökum og byggilegum

Skógarnir halda meginlöndunum rökum og byggilegum. Þetta er kjarninn í kenningu Rússanna Victors Gorshkov og Anastassiu Makarieva við kjarneðlisfræðistofnunina í Pétursborg (the St Petersburg Nuclear Physics Institute). Kenning þeirra er nýr eðlisfræðilegur skilningur á tengslum skógar og vatnsbúskaps landsins sem hefur mikla þýðingu reynist hún rétt. Skógarnir eru þá ekki aðeins lungu jarðar heldur einnig hjartað og blóðrásin. Skógaeyðing við ströndina getur gert heil meginlönd illbyggileg og skóggræðsla getur fært raka til þurrkasvæða jarðar. Þannig kann að verða mögulegt að láta skóga blómstra á eyðimörkum heimsins.

Þau Victor og Anastassia nefna Ástralíu sem dæmi um meginland sem þornaði vegna skógeyðingar af mann völdum. Fyrir um 40 – 100 þúsund árum var Ástralía skógi vaxin en er núna að mestu eyðimörk. Jarðsagan sýnir að rakamagnið sem flæðir yfir álfuna hefur ekki breyst frá þeim tíma að álfan var skógi vaxin. Það sem breyttist var að þegar frumbyggjar Ástralíu settust þar að þá ruddu þeir skóg og eyddu með eldi. Þegar skógarþekjan rýrnaði þá rofnaði vatnshringrás milli skógar og lofthjúpsins sem hélt landinu röku og gróskulegu. Skógurinn varð þess valdandi að næg úrkoma barst inn að miðju meginlandsins en nú er úrkoman að mestu bundin við strandhéruðin.

Við íslendingar erum ein vatnsríkasta þjóð heims miðað við mannfjölda og lítum á vatn sem óþrjótandi auðlind. En vatnsskortur er eitt af háskalegustu vandamálum heimsbyggðarinnar. Nærri 70% af nýtanlegu vatni á þurrlendi jarðar er þegar nýtt af mönnum og þar af er um 90% notað við landbúnað. Jarðarbúar eru nú um 6,5 milljarðar en verða líklega um 9 milljarðar um 2050. Vatnsskorturinn verður því óhjákvæmilega sárari og samkeppnin harðari um hvern dropa. Það þarf að nýta vatnið betur og skipta vatninu af meiri sanngirni milli jarðarbúa. En er hægt að auka nýtanlegt vatn á þurrlendi jarðar? Stækka kökuna sem er til skiptanna? Já - samkvæmt kenningu þeirra Victors og Anastassíu er það hægt með því að klæða meira land skógi. En sú leið vinnur einnig gegn hlýnun jarðar með því að binda koltvísýring andrúmsloftsins og skapar sjálfbæra endurnýjanlega trjáviðarauðlind á svæðum jarðar sem í dag gefa lítið af sér.


frett_21012009(1)


frett_21012009(2)


Grein og myndir frá New Scientist.

 

Fleiri áhugaverðar greinar um sama efni:

banner3