Fréttir

27.03.2009

Árið mun ráða úrslitum fyrir skóga heimsins

Umhverfisverndarsamtökin Earthwatch (www.earthwatch.org) segja það nauðsynlegt að þjóðarleiðtogar á heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (sem haldin verður í Kaupmannahöfn í desember n.k.) komi sér saman um leiðir til þess að stöðva skógareyðingu í heiminum. Skýrslur S.Þ. sýna að eyðing skóga skýrir um 20% af árlegri losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum í heiminum. Á dagslangri ráðstefnu í London í dag munu samtökin kynna niðurstöður sínar um alvarleika skógeyðingar í heiminum fyrir hnattrænar loftslagsbreytingar. „Þetta ár mun ráða úrslitum fyrir skóga og loftslagsbreytingar,“ segir Dan Bebber, yfirmaður loftslagsrannsókna hjá Earthwatch í viðtali við fréttastofu BBC. „Við vonumst eftir stórum ákvörðunum á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn í árslok. Ef við fáum ekki lausn á spurningum um hlutverk skóga sem mótvægi gegn auknum styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti, verður baráttan um að halda útstreyminu innan þolanlegra marka töpuð.“


Að vekja almenning til vitundar

Þrátt fyrir þær aðgerðir sem innleiddar hafa verið með Kýótóbókuninni við samninginn um loftslagsbreytingar árið 1997, hefur útstreymi koldíoxíðs haldið áfram að aukast allan síðasta áratug vegna aukinnar orkunotkunar og eyðingar skóga í heiminum. Ástæðan fyrir því að eyðing skóga skýrir 20% af heildarlosun CO2 er einkum sú að skógar hitabeltisins hafa verið ruddir eða brenndir til þess að opna land til landbúnaðar.

Skógareyðingin verður eitt af þeim lykilatriðum sem tekin verða fyrir á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn, þar sem þjóðir heims munu koma sér saman um sáttmála sem taka mun við eftir að Kýótósamningurinn rennur út árið 2012.  „Þetta ár mun ráða úrslitum um fyrir framtíð skóganna og við teljum að vekja verði almenning betur til vitundar um hlutverk þeirra í samhengi við loftslagsmálin,“ segir Dr. Bebber. „Mikill hagrænn þrýstingur hefur verið á því að nýta skóga með ósjálfbærum hætti, einkum skóga hitabeltisins. Eins og staðan er í dag, fæst áreiðanlega þúsundfaldur hagnaður af því að umbreyta skógum í landbúnaðarland og rækta t.a.m. sojabaunir, en með því að stunda sjálfbæra skógrækt á sama landi. Ráða verður bót á þessu misvægi og til þess er hnattrænt samkomulag nauðsynlegt.“

 

Að fá peninga til að vaxa á trjám

Gro Harlem Brundtland, sérstakur erindreki S.Þ. á sviði loftslagsbreytinga, heldur því fram að magn gróðurhúsalofttegunda sem losnar árlega af völdum skógeyðingar sé ámóta og samanlögð, árleg heildarlosun Bandaríkjamanna og Kínverja á koldíoxíði. „Fyrir því er nauðsynlegt að taka ríkt tillit til skógarins í nýjum loftslagssamningi“ tjáði hún fulltrúm á fundi skógræktarnefndar S.Þ. sem haldin var í Róm fyrr í þessum mánuði.  „Skóginum var að mestu haldið utan við Kýótóbókunina, en finna verður honum stað í víðtækari lausn á loftslagsvandanum.“ Brundtland hélt því ennfremur fram að skilvirk lausn á skógeyðingarvandanum felist í því að „skapa nauðsynlega hvata fyrir þróunarríkin til þess að vinna að verndun skóga í hnattræna þágu."

Niðurstaða Eliasch-skýrslunnar frá því í októbermánuði 2008, sem unnin var að beiðni breska forsætisráðherrans Gordon Brown, var sú að alþjóðlegt samkomulag um verndun skóga gæti dregið úr kostnaði við mótvægisaðgerðir gegn hlýnun andrúmslofti um allt að 50% fyrir árið 2030. Skýrslan var unnin af sænska kaupsýslumanninum Johan Eliasch. Í niðurstöðum skýrslunnar er lagt til að auðug lönd stofni sjóð til þess að standa straum af verndun regnskóga í hitabeltinu. Tilkoma slíks sjóðs gæti dregið úr hraða skógareyðingar um 75% fyrir árið 2030.

Ein áhugaverðasta leiðin til þess að draga úr eyðingu skóga í hitabeltinu er REDD-áætlunin (REDD: Reducing Emissions from Deforestion and Degradation; áætlun um að „draga úr losun vegna skógeyðingar og hnignunar skóga“). Áætlunin kom fyrst fram í dagsljósið á samningafundum um loftslagssamning S.Þ. í Bali í Indónesíu haustið 2007. „Bali-aðgerðaáætlunin“ (“Bali Action Plan”) hvatti til „stefnumótunar og jákvæðra hvata sem stuðlaði að því að draga úr losun frá skógeyðingu og hnignun skóga í hitabeltislöndum.“ Þetta leiddi til þess að REDD-áætlunin var formlega komið á fót, þar sem gert er ráð fyrir að „lönd sem hafa vilja og getu til þess að draga úr losun vegna skógeyðingar skuli fá fjárhagslega aðstoð við slíkar aðgerðir.“

Stuðningsmenn áætlunarinnar halda því fram að það veiti nauðsynlegt fjárstuðningskerfi til þess að stöðva ruðning skóga á stórum svæðum í hitabeltinu. Gagnrýnendur áætlunarinnar hafa á hinn bóginn verið tortryggnir, með þeim rökum að úrræði skorti til þess að hafa stjórn á því hvernig löndum verði umbunað fyrir þann kolefnisforða sem vernda skal í slíkum skógum. Án tillits til þess hvaða áætlun verður ofan á, segir Dr. Bebber frá Earthwatch að nauðsynlegt sé að sendifulltrúar á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn finni leiðir til þess að draga úr skógeyðingu. „Ef slíkar áætlanir komast ekki til framkvæmdar sem fyrst, verður það fljótlega orðið um seinan.“

 

Frétt og mynd af fréttavef BBC.
banner2