Fréttir

09.03.2009

Fyrirlestur um samlífi og samskipti sveppa og baktería við háplöntur

Í dag, mánudaginn 9. mars kl. 15 verður málstofa LbhÍ á Keldnaholti.  Að þessu sinni er fyrirlesarinn Halldór Sverrisson doktor í plöntusjúkdómafræði og lektor við LbhÍ. Í fyrirlestinum mun Halldór fjalla um samlífi og samskipti sveppa og baktería við háplöntur. Gefið verður yfirlit yfir ólík form samlífis og laustengds sambýlis þessara lífvera. Lauslega verða raktar innlendar rannsóknir á þessu sviði. Höfuðáherslan í erindinu verður þó á tiltölulega nýjar erlendar rannsóknir á örverum sem lifa í plöntuvefjum án þess að valda skaða, en virðast þvert á móti geta stuðlað að auknum vexti og betra heilbrigði plantna. Lagt er til að slíkar örverur nefnist vefbýlingar eða vefbýlisörverur. Fyrir íslenskt ræktunarfólk eru vefbýlisörverur sem geta tillífað nitur úr andrúmslofti sérlega áhugaverðar.

Hægt verður að fylgjast með fyrirlestrinum á heimasíðu Landbúnaðarháskóla Íslands.

Halldór Sverrisson lauk B.S. prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1973. Hann hóf nám í plöntusjúkdómafræði við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn haustið 1974, með grasafræði og sveppafræði sem aukagreinar (sveppafræðin var tekin við Kaupmannahafnarháskóla), og lauk doktorsprófi vorið1979. Lokaritgerðin ber heitið “Pythium-slægtens biologi og plantepatologiske betydning” og fjallar hún um jarðvegssveppaættkvíslina Pythium og samspil tegunda hennar við aðrar örverur og plöntur. Síðan hefur hann unnið við rannsóknir og plöntueftirlit á Rannsóknastofnun landbúnaðarins og starfað við kennslu og rannsóknir hjá Landbúnaðarháskóla Íslands og fyrirrennurum þeirrar stofnunar og einnig verið stundakennari við Háskóla Íslands.

Halldór er nú lektor á LbhÍ og hefur frá árinu 2003 einnig starfað í hálfu starfi sem sérfræðingur hjá Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá. Helstu viðfangsefni Halldórs hafa verið á sviði plöntusjúkdóma og niturnámsörvera.
banner3