Fréttir

11.02.2009

Alþjóðleg vísindaráðstefna í Finnlandi í haust

Rannsóknarstöðin á Mógilsá er einn af skipuleggjendum alþjóðlegrar vísindaráðsstefnu sem haldin verður í Koli þjóðgarðinum í Finnlandi í september. Ráðstefnan ber titilinn „Adapting Forest Management to Maintain the Environmental Services: Carbon Sequestration, Biodiversity and Water“ .

Meginþema ráðstefnunnar eru nýjustu rannsóknir á því hvernig aðlaga þarf skógarumhirðu til að vinna á móti neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga á ýmsa mikilvæga vistkerfisþjónustu sem ræktaðir skógar veita mannfólki umfram viðarnytjarnar, þ.e. kolefnisbindingu úr andrúmslofti, viðhaldi vatnsgæða yfirborðsvatns og tegundafjölbreytni.

Það eru einkum mjög áhugaverðar rannsóknir íslenskra vísindamanna við Rannsóknastöðina á Mógilsá og Landbúnaðarháskóla Íslands á kolefnishringrás ræktaðra skóga sem eru ástæðan fyrir því að okkur var boðið að taka þátt í að skipuleggja þessa ráðstefnu. Einnig hefur íslenska rannsóknaverkefnið SkógVatn vakið talsverða athygli, en í því fara fram rannsóknir á áhrifum skógræktar og landgræðslu á vatnalíf, vatnsgæði og vatnshag. Það er unnið í samstarfi Landbúnaðarháskólans, Háskóla Íslands, Veiðimálastofnunar, Skógræktar ríkisins, Landgræðslu ríkisins og Matís með stuðningi frá Norræna skógræktarrannsóknasjóðnum, UOOR og Framleiðnisjóði landbúnaðarins

Ráðstefnan er ætluð framhaldsnemum, vísindamönnum, áhugamönnum og stjórnendum náttúrunýtingar og stjórnmálamönnum sem vilja fræðast um nýjustu rannsóknir á þessu sviði bæði austanhafs og vestan. Áhugasömum er bent á vefsíðu ráðstefnunnar til frekari fróðleiks og til að skrá þátttöku.


Nánari upplýsingar veita Brynhildur Bjarnadóttir brynhildur@skogur.is sérfræðingur hjá Mógilsá og Bjarni Diðrik Sigurðsson bjarni@lbhi.is, prófessor í skógfræði við LbhÍ.
banner4