Fréttir

20.01.2009

Mikill fræafli á Suður- og Vesturlandi

Í haust söfnuðu starfsmenn Skógræktar ríkisins á Suður- og Vesturlandi 80 kg af fullhreinsuðu fræi. Á Suðurlandi var safnað 61 kg en 19 kg fengust frá Vesturlandi. Fræi var safnað af 17 tegundum af sjö ættkvíslum, mestu af sitkagreni og íslensku birki. Af sitkagreni fengust 47 kg og 16 kg af birki. Fræaflinn er íslenskri skógrækt afar mikilvægur þar sem trjáfræ er afar dýrt í innkaupum og torfengið frá stöðum sem henta íslenskum aðstæðum. Íslensk skógrækt er nú orðin að stórum hluta sjálfri sér næg um fræ til ræktunar. Ætla má að 6 - 14 milljón tré fáist úr 47 kg af sitkagreni sem dugar í 2 – 4 þúsund ha af sitkagreniskógi.

Að þessu sinni fengust um 3 kg af askfræi í Fljótshlíðinni. Askur er suðlæg tegund úr laufskógum Evrópu og heilagt heimstré ásatrúarinnar. Askur hefur verið ræktaður í litlum mæli á Íslandi í um eina öld og í Reykjavík eru nokkur gömul tré af þessari tegund. Fram til síðustu aldamóta sást ekki blóm né fræ á íslenskum asktrjám og var talið að tegundin gæti ekki blómgast hér á landi. Eftir að hlýindakafli síðustu ára hófst hefur akur í Fljótshlíð tekið að blómgast og síðustu ár hafa trén verið hlaðin frjóu og góðu fræi. Það þykir því sæta tíðindum að askfræjum hafi verið safnað í haust.

Eftir að fræinu hafði verið safnað var það hreinsað hjá Skógrækt ríkisins á Tumastöðum í Fljótshlíð og stýrði Theodór Guðmundsson fræhreinsuninni.

 

Fræaflinn skiptist svona eftir tegundum:

 

Tegund grömm %
Íslnsk birki 16460 20,6%
Steinbjörk 260 0,3%
Blæölur 458 0,6%
Gráölur 46 0,1%
Hæruölur 440 0,5%
Kjarrölur 525 0,7%
Rauðölur 140 0,2%
Sitkaölur 2020 2,5%
Reyniviður 1315 1,6%
Knappareynir 80 0,1%
Askur 2955 3,7%
Garðahlynur 565 0,7%
Fjallaþinur 4280 5,3%
Stafafura 2300 2,9%
Rauðgreni 960 1,2%
Sitkagreni 46880 58,6%
Sitkabastarður 325 0,4%
Alls 80009 100,0%

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 
banner1