Fréttir

26.04.2018

Mæðivisnuveira og HIV: Margt er líkt með skyldum

Ný yfirlitsgrein komin út í Icelandic Agricultural Sciences

„Mæði-visnuveira og HIV: Margt er líkt með skyldum“ er heiti nýrrar greinar sem komin er út í alþjóðlega vísindaritinu Icelandic Agri­cultural Sciences (IAS). Þetta er yfir­lits­grein þar sem reifuð eru ýmis líkindi með mæðivisnuveiru sem veldur m.a. lungna­bólgu og heilabólgu í sauðkindum og HIV-veirunni sem veldur alnæmi í fólki.

Greinina ritar Valgerður Andrésdóttir, sam­eindaerfðafræðingur og deildarstjóri í til­rauna­stöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum. Í yfirliti greinarinnar segir:

Mæði-visnuveira sýkir kindur og veldur aðal­lega lungnabólgu (mæði) og heilabólgu (visnu). Veiran er lentiveira, sem veldur hæg­gengum sjúkdómi, og er náskyld alnæmisveirunni HIV. Veirurnar eiga margt sameiginlegt, svo sem skipulag erfðaefnis, virkni og gerð veirupróteina, fjölgunarferli, viðbrögð hýsils við sýkingu og dvala­­sýk­ingu, sem hýsillinn losnar aldrei við. Báðar veirur sýkja frumur ónæmiskerfisins; mæði-visnu veira sýkir átfrumur, en HIV sýkir bæði átfrumur og T-eitilfrumur. Í yfirlits­grein­inni eru ýmis líkindi með þessum veirum reifuð.

Visna og mæði eru sauðfjársjúkdómar sem bárust til landsins með innflutningi á Karakúlfé árið 1933 og ollu miklum búsifjum í íslenskum sauðfjárbúskap. Þetta varð til þess að árið 1948 var Tilraunastöðin á Keldum stofnuð til þess að hafa með höndum rannsóknir á þessum og öðrum dýrasjúkdómum en visnu og mæði var útrýmt með niðurskurði sem lauk 1965. Björn Sigurðsson, fyrsti forstöðumaður Tilraunastöðvarinnar stjórnaði rannsóknum á þessum sjúk­dóm­um, og setti fram kenningar um nýjan flokk smitsjúkdóma, hæggenga smitsjúkdóma. Mæði-visnu veiran er í þessum flokki en einnig HIV veiran og hafa rannsóknir á mæði-visnu veirunni gefið mikilsverðar upplýsingar um líf­fræði HIV.

Í tilkynningu frá ritstjórn IAS segir að mikill fengur sé að hafa fengið þessa yfirlitsgrein sem í grunninn byggist á ein­hverjum merkilegustu rannsóknum og uppgötvunum sem komið hafi frá íslenskum fræðimönnum.
banner5