Fréttir

25.04.2018

Fallega vaxa ungskógar

Skógarbændur á Vesturlandi á námskeiði í ungskógaumhirðu

Námskeið í ungskógaumhirðu var haldið laugardaginn 14. apríl á Hvanneyri að frumkvæði Félags skógarbænda á Vesturlandi. Landbúnaðarháskóli Íslands hélt utan um námskeiðið en um kennsluna sá Hlynur Gauti Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landssamtaka skógareigenda, með dyggri aðstoð Guðmundar Siguðrssonar, skógræktarráðgjafa á Vesturlandi. Frá þessu segir í frétt á vef Landssamtaka skógareigenda, skogarbondi.is.

Frá árinu 2010-2017 höfðu þau Hlynur og Sherry Curl haldið sams konar námskeið á Fljótsdalshéraði, alls 7 skipti. Þetta áttunda skipti var því í fyrsta skipti sem námskeiðið er haldiðutan Austurlandsfjórðungs. Námskeiðið miðaði aðallega að umhirðu á lerki og furu.

Um morguninn fór kennslan fram innandyra í formi fyrirlestra um millibilsjöfnun (bilun/snemmgrisjun) og trjásnyrtingu (tvítoppaklipping, snyrting og uppkvistun). Eftir hádegið var farið í Steindórsstaði í Reykholtsdal þar sem húsráðandinn, Guðfinna Guðnadóttir, tók á móti hópnum. Á Steindórsstöðum mátti finna ýmsar skógargerðir og fengu þátttakendur að meta skóg og sjá hvernig millibilsjöfnun færi fram. Trjásnyrtingu voru einnig gerð skil og skeggrætt mikið um ýmsar úrfærslur.

Um kaffileytið var brunað sem leið lá í Logaland til móts við Hraundísi Guðmundsdóttur, skógræktarráðgjafa á Vesturlandi og heimamann. Hraundís hellti upp á ketilkaffi og furunálate en síðan var gengið um svæðið þar sem danskur skóglistamaður, Johan Grønlund,hefur unnið trjáskúlptúra víðs vegar um svæðið. Námskeiðið endaði á nágrannajörðunum í Deildartungu og Gróf en þar voru tveir ólíkir lerkireitir millibilsjafnaðir fyrir tveimur árum.

Þátttakendur á námskeiðinu voru 9 úr Laxárdal í Dölum, Lundarreykjadal, af Skarðsströnd og Skógarströnd í Dölum, Mýrum og úr Hvalfirði. Sjá má fleiri myndir frá námskeiðinu á vefnum skogarbondi.is.

Myndir og texti af vef LSE
.


banner3