Fréttir

09.07.2009

Loftslagsvæn nýting grisjunarviðar úr íslenskum skógum

Elkem Ísland og Skógrækt ríkisins hafa samið um 1000 tonn af grisjunarviði úr íslenskum skógum í tilraunaverkefni þar sem ferskt viðarkurl er notað sem kolefnisgjafi í stað jarðefnaeldsneytis í járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga. Á grundvelli þeirrar reynslu sem fæst er stefnt að langtímasamningi um notkun íslensks iðnviðar á Grundartanga. Ásamt Skógrækt ríkisins hafa Landsamtök skógareigenda, Skógræktarfélag Íslands og skógræktarfélögin í nágrenni verksmiðjunnar staðið að samningsgerðinni.

Samningurinn verður undirritaður á Mógilsá mánudaginn 13. júlí kl. 15:00 af Einari Þorsteinssyni, forstjóra Elkem Ísland og Jóni Loftssyni, skógræktarstjóra Skógræktar ríkisins. Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, vottar samninginn ásamt Eddu Björnsdóttur, formanni landsamtaka skógareigenda og Magnúsi Gunnarssyni, formanni Skógræktarfélags Íslands.

Samningurinn markar nýja tíma í íslenskri skógrækt þar sem nú er staðfest að íslenskir skógar eru arðsöm auðlind og eftirspurn eftir íslenskum viðarafla er langt umfram mögulegt framboð. Ný störf skapast strax við grisjun, flutning og úrvinnslu grisjunarviðar án þess að því fylgi útgjöld úr ríkissjóði.

Skógurinn er mikilvægur til að binda gróðurhúsalofttegundir úr andrúmslofti en trjáviður úr sjálfbærum nytjaskógi er hlutlaus gagnvart losun gróðurhúsalofttegunda. Í skýrslu sérfræðinganefndar umhverfisráðuneytis um möguleika til að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi er bent á að ein hagkvæmasta leið Íslendinga til að ná markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda er að járnblendiverksmiðja Elkem noti ferskt viðarkurl í stað jarðefnaeldsneytis. Með þessum samningi er fyrsta skrefið að því markmiði stigið.

Tilgangur tilraunaverkefnisins er að fá nákvæmar upplýsingar um gæði og hagkvæmni notkunar fersks trjáviðar í stað jarðefnaeldsneytis. Tilgangurinn er einnig að fá reynslu af grisjun og afgreiðslu íslensks viðar á mun stærri skala en áður hefur sést hér á landi. Í framhaldi stefna samningsaðilar að víðtækara samstarfi um sjálfbæra og arðsama nýtingu íslenskra skóga, þróun vistvænna og árangursríkara framleiðsluferli Elkem á Íslandi.
banner2