Fréttir

26.02.2018

Fagráðstefna skógræktar nálgast

Tryggið ykkur gistingu sem fyrst

  • Hof Cultural and Conference Center in Akureyri, venue of the next NordGen thematic day in April 2018. Photo: visitakureyri.is

Ari Trausti Guðmundsson alþingismaður verður meðal frummælenda á Fagráðstefnu skógræktar sem haldin verður í Hofi á Akureyri 11.-12. apríl. Erindi sitt nefnir Ari Trausti „Þáttur skógræktar í kolefnishlutlausu landi“ og veltir hann fyrir sér m.a. hugmyndum um fjórföldun skógræktar á Íslandi. Einnig verður fjallað um loftslagsáhrif skógræktar á framræstu mýrlendi og margt, margt fleira.

Rétt er að hvetja fólk til að skrá sig sem fyrst á Fagráðstefnuna með því að senda tölvupóst til Hraundísar Guðmundsdóttur, hraundis@skogur.is. Frátekin eru hótelherbergi fyrir ráðstefnugesti á Hótel KEA fram til 10. mars.

Kolefnisbinding og fjórföldun skógræktar

Margt áhugavert er á dagskrá Fagráðstefnunnar að þessu sinni. Fyrri dagurinn er þemadagur í samvinnu við NordGen og þá verður fjallað um fræöflun og trjákynbætur. Seinni daginn verður sjónum m.a. beint að kolefnisbindingu með skógrækt á Íslandi og erlendis. Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, tíundar ýmis stór verkefni sem unnið er að vítt og breitt um heiminn og veltir fyrir sér straumum og stefnum í ljósi loftslagsbreytinga. Arnór Snorrason, sérfræðingur á Mógilsá, og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sviðstjóri skógarauðlindasviðs Skógræktarinnar, ræða áhrif fjórföldunar nýskógræktar á Íslandi á losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda og viðtartekju. Ari Trausti Guðmundsson alþingismaður flytur erindi sem hann nefnir  „Þáttur skógræktar í kolefnishlutlausu landi“ og veltir fyrir sér m.a. hugmyndum um fjórföldun skógræktar á Íslandi.

Birkiskógar í framtíðinni og skógrækt á framræstu landi

Á ráðstefnunni verður búskaparskógræktarverkefni í Húnaþingi verstra kynnt, fjallað um árangur landgræðslu og skógræktar á Hólasandi, landnám birkis á Skeiðarársandi, útbreiðslu birkikembu og áhrif hennar á mismunandi kvæmi birkis, spá um lifun grenitrjáa í ungskógum á Íslandi og raunfærnimat í skógrækt. Þá verður velt upp möguleikum birkiskóga á Íslandi í framtíðinni og sagt frá þéttleikatilraun í lerki á Héraði en einnig er vert að vekja athygli á erindi Brynhildar Bjarnadóttur hjá HA, Bjarna Diðriks Sigurðssonar hjá LbhÍ og Bjarka Þórs Kjartanssonar á Mógilsá þar sem til umfjöllunar verða loftslagsáhrif skógræktar á framræstu mýrlendi.

Skógtæknileg málefni verða einnig til umfjöllunar á Fagráðstefnu, rætt um notkun dráttarvéla í skógarhöggi og varnir og viðbrögð við gróðurbrunum á Íslandi.

Texti: Pétur Halldórsson
Mynd af Hofi: visitakureyri.is
banner5