Fréttir

12.02.2018

Sársaukalitlar loftslagsaðgerðir sem auðvelt er að ráðast í

Pólitískt ómögulegt að draga úr neyslu fólks, segir skógræktarstjóri

Skógrækt, almenn landgræðsla og bleyting á framræstu landi eru sársaukalitlar að­gerð­ir í loftslagsmálum miðað við aðgerðir sem snerta neyslu fólks og venjur. Langan tíma tekur að breyta hegðun almennings og pólitískt ómögulegt er að draga úr neyslu. Þetta segir Þröstur Eysteinsson skóg­rækt­ar­stjóri.

Hringt var í Þröst í þættinum Reykjavík síð­degis á Bylgjunni föstudaginn 9. febrúar í framhaldi af viðtali við hann í Bænda­blað­inu þar sem Þröstur gagnrýndi loftslags­um­ræðuna og aðgerðarleysi í loftslags­mál­um.

Í viðtalinu á Bylgjunni benti Þröstur á að við stæðum frammi fyrir hlýnun andrúms­lofts­ins sem gæti haft mjög alvarlegar af­leið­ing­ar fyrir mannkynið svo sem með hækkun sjávarborðs og þjóðflutningum í kjölfarið. Talað hefði verið um þetta í þrjátíu ár en lítið bæri á aðgerðum.

Skógrækt er aðeins einn angi af málinu, segir Þröstur, en hún getur verið hluti af lausninni á loftslagsvandanum. Vernda þurfi þá skóga sem fyrir eru í heiminum og jafnframt rækta nýja skóga. Þetta hvort tveggja sé auðvelt að gera, bæði úti í heimi og hér á Íslandi. Íslendingar geti auðveldlega ræktað meiri skóg enda sé hér nægt landrými. Þjóð­in sé rík og hafi vel efni á þessu. Auk kolefnisbindingarinnar skili skógarnir líka hreinum arði í framtíðinni. Jafn­framt sé vert að efla landgræðslu og fylla í skurði á framræstu landi.

Neysla fólks og venjur er nokkuð sem er erfitt að breyta og tekur langan tíma, bendir Þröstur á. Í því sambandi nefndi hann í viðtalinu akstur bifreiða, rafbílavæðingu, flugferðir og annað sem felur í sér breytingar á högum fólks. Auðveld­ara sé að ráðast í sársaukalitlar aðgerðir eins og skógrækt, almenna landgræðslu og að bleyta upp í framræstu landi. Vitað sé að losun frá framræstu landi sé meiri en frá mýrum en fanga þurfi betur breytileikann á því sem gerist frá ein­um stað til annars þegar fyllt er í skurði. En jafnvel þótt enn skorti nokkuð á þekkinguna eigi menn ekki að láta það stöðva sig heldur hefjast handa og efla rannsóknir samhliða aðgerðum.

Texti: Pétur Halldórsson

banner2