Fréttir

09.02.2018

Nýsjálendingar vilja gróðursetja 100 milljónir trjáa árlega

Öll raforka verði sjálfbær og meira fé lagt í járnbrautir og hjólasamgöngur

Ný ríkisstjórn Nýja-Sjálands vill gera sam­félagið grænna með því að gróður­settar verði á hverju ári 100 milljónir trjá­plantna í landinu. Þannig megi tryggja næga sjálf­bæra orku fyrir raforkukerfi landisins. Stjórn­in vill jafnframt auka framlög til lestar­samgangna og hjólreiðabrauta.

Frá þessu er sagt á vef alþjóða­efnahags­ráðsins, World Economic Forum. Jacinda Ardern settist í stól forsætisráðherra í októ­ber sem leið og tíundaði þá samkomu­lag sem verkamannaflokkur hennar gerði við samstarfsflokkana í hinni nýju ríkisstjórn.

Við þetta tilefni tók Ardern fram að óþarfi væri að hvetja hana til dáða í loftslags­málunum eða sannfæra hana um mikilvægi þeirra. Loftslagsmálin yrðu eitt megin­mála hinn­ar nýju ríkis­stjórnar. Mark­mið hennar er að minnka nettó­losun gróðurhúsa­lofts niður í núll árið 2050.

Markmiðunum verður að hluta til náð með því að halda uppteknum hætti á ákveðnum sviðum. Nýja-Sjáland framleiðir nú þegar um 85 af hundraði allrar raforku sinnar með endurnýjanlegum orkugjöfum svo sem vatnsafli, jarðvarma og vindorku. Jacinda Ardern forsætisráðherra vill að þetta hlutfall verði komið upp í 100 prósent árið 2035, meðal annars með því að kannað verði hvort nýta megi þök skólabygginga til raforkuframleiðslu með sólarsellum.

Þá segir hún að landið verði að tvöfalda gróðursetningu trjáplantna. Því markmiði sé auðvelt að ná með því að nýta land sem lítið eða ekkert er nýtt til búfjárbeitar. Sömuleiðis stefnir hún að því að allur bílafloti hins opinbera verði orðin „grænn“ innan áratugar.

Ekki fella allir sig við þessar hugmyndir. Margir bændur óttast að landbúnaðinum verði gert að ganga inn í viðskipta­kerfi með losunarheimildir og því muni fylgja auknar álögur. Katie Milne, forseti hagsmunasamtakanna Federated Farmers, segir áhyggjur bænda snúast um að með slíku viðskiptakerfi verði þeir undir í samkeppni við önnur matvæla­framleiðslulönd.

Nýja ríkisstjórnin á Nýja-Sjálandi hyggst einnig hækka lágmarkslaun í landinu á næstu árum um 27 prósent og verja andvirði ríflega 72 milljarða íslenskra króna til að styrkja smærri þorp, bæi og sveitahéruð svo bæta megi lestar­sam­göngur og aðra innviði. Jacinda Arden segir vandfundið það hérað í landinu þar sem íbúar hafi ekki þótt innviðirnir vanræktir að undanförnu.

Nýsjálendingar eru um 4,8 milljónir talsins. 100 milljónir trjáplantna samsvara því að gróðursett sé tuttugu og ein trjá­planta fyrir hvern landsmann. Ef við segjum að á Íslandi séu gróðursettar þrjár milljónir trjáplantna er sambærileg tala fyrir Ísland um fjórar plöntur á mann. Til þess að ná Nýsjálendingum þyrftu Íslendingar því að fimmfalda nýskógrækt eða rúmlega það og gróðursetja að minnsta kosti 15 milljónir trjáplantna á ári. Hérlendis er nóg af landi sem ekki nýt­ist eða ætti að nýta til búfjárbeitar.

Texti: Pétur Halldórsson
banner1