Fréttir

08.02.2018

Áform um 300 metra timburturn í Lundúnum

Sérfræðingar spá því að timburháhýsi fari stighækkandi

  • Í sístækkandi borgum heims skiptir miklu máli að nýta landrýmið sem best og helsta lausnin á því er að reisa hærri byggingar. Þá er mikilvægt að nota endurnýjanlegt byggingarefni á borð við timbur. Skjámynd úr myndbandi The Economist.

Breskir hönnuðir hafa sett fram hugmynd að 300 metra háum timburturni sem reistur yrði á menningarmiðstöðinni Barbican Center í Lundúnum. Tækninni fleygir fram við smíði háhýsa úr krosslímdum gegn­heil­um viði sem margir telja byggingarefni fram­tíðarinnar. Hæstu timburbyggingar heims eru nú um 55 metrar á hæð en því er spáð að slík hús fari stighækkandi og 100 metra háar timburblokkir líti dagsins ljós í fyllingu tímans.

Æ oftar er rætt um timbur sem hráefni fram­tíðarinnar, ekki síst í byggingariðnaði. Kross­límdur, gegnheill viður er sterk­ari en stál og stein­steypa og heldur burðar­þoli sínu lengur í elds­voða. Þróun byggingar­tækni með kross­límdum viði gerir nú kleift að reisa æ hærri bygg­ing­ar og í Lund­ún­um eru hug­mynd­ir uppi um að reisa 300 metra háan turn úr timbri.

Timburbyggingar lausnin á mannfjölgun í borgum

Breska fréttatímaritið The Economist hefur fjallað um þessi efni og gefið út fróðlegt myndband þar sem þróunin er tíunduð. Þar er greint frá því að 2050 verði jarðarbúar nærri tíu milljarðar og tveir þriðju mannkyns muni búa í borg­um. Þá skipti miklu máli að nýta landrýmið sem best og helsta lausnin á því sé að reisa hærri byggingar. Efnin sem nú sé algengast að nota í slíkar byggingar, stál og steinsteypa, hafi mikla kolefnislosun í för með sér. Lausnin á þeim vanda geti verið að nýta byggingarefni sem mannkynið hefur notað í árþúsundir. Efnið er timbur.

Andrew Waugh, annar tveggja stofnenda arkitektastofunnar Waugh Thistleton í Lundúnum, telur að reisa ætti allar byggingar úr timbri. Hann spáir því að litið verði á stál og steinsteypu svipuðum augum og við erum farin að líta á bensín og díselolíu nú, sem efni fortíðarinnar. Skjámynd úr myndbandi The Economist.

Sérfræðingar sem rætt er við í mynd­band­inu telja að byggingar framtíðarinnar ættu að verða reistar úr timbri og möguleikarnir séu miklir. Mikil tækifæri séu fólgin í ýmsum aðferðum sem eru að koma fram og gera kleift að reisa æ hærri byggingar úr timbri. Við eigum að líta á stál og stein­steypu með sama hætti og við erum farin að líta á bensín og díselolíu, segja sér­fræð­ing­ar­nir.

Sótsporið aðeins einn þriðji

Rifjað er upp í myndbandinu að skæðir elds­voðar hafi grandað timburbyggingum borga og jafnvel heilu borgarhlutunum í ár­anna rás. Með tilkomu nútímalegra bygg­ingaraðferða með stáli og steinsteypu snemma á tuttugustu öld sú hætta minnkað að mun. Þessi efni gerðu líka kleift að reisa mun hærri byggingar en áður hafði verið gerlegt. Michael Ramage sem starf­ar við þróun byggingarefna úr náttúrlegum hráefnum við Cambridge-háskóla telur að steinsteypa og stál þættu varla fýsi­legir kostir ef þeir kæmu fram sem nýjung á okkar dögum enda séu þetta dýr og þung efni, steypuna þurfi að styrkja með stáli og mikil kolefnislosun verði af framleiðslu og flutningum.

Timbur verður hins vegar til í skógum sem rækta má með sjálfbærum hætti. Það er líka léttara en steinsteypa. Og ekki skiptir minnstu máli að þegar trén vaxa draga þau koltvísýring úr andrúmsloftinu og binda hann í viðnum. Þar geymist kolefnið svo lengi sem timbrið endist. Vísað er í rannsókn sem hafi sýnt að með því að reisa 125 metra háhýsi úr timbri en ekki stáli og steypu mætti draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna byggingarinnar um 75 af hundraði. Sótsporið yrði því aðeins einn þriðji af sótspori hefðbundinna háhýsa af þessari stærð.

Krosslímt timbur ólíkt venjulegum spýtum

En venjulegar spýtur er ekki hægt að sveigja eins og stál eða hella í mót eins og steinsteypu. Og venjulegar spýtur eru ekki eins sterkar og stál eða steypa. Verkfræðingar hafa hins vegar fundið lausn á því, svokallað krosslímt timbur. Michael Ramage segir að með því að líma saman planka á víxl með níutíu gráða horni fáist nýtt byggingarefni sem sé bæði mjög stöðugt og sterkt. Þykkar stoðir og þil úr slíku efni séu mjög lengi að brenna því þykkur viðurinn brenni ekki glatt heldur kolist. Kolaða efnið sé góð einangrun og hægi mjög á bruna efnisins þannig að það heldur burðar­þoli sínu lengi við eldsvoða. Stál verði hins vegar mjúkt þegar það hitnar og dæmi séu um þök með burðarvirki úr stáli sem hafi hrunið við eldsvoða meðan sambærileg þök með burðarvirki úr timbri hafi haldist uppi.

Helmingi fljótlegra getur verið að reisa hverja hæð í timburbyggingum en hefðbundnum stál- og steinsteypuhúsum.
Skjámynd úr myndbandi The Economist.

Rætt er við Andrew Waugh, annan tveggja stofnenda arkitektastofunnar Waugh Thistle­ton sem hannar nú byggingar úr  þessu nýja byggingarefni, krosslímdum viði. Með því að nota forsmíðaðar einingar taki mjög stuttan tíma að reisa háar bygg­ing­ar og gjarnan sé lokið við eina hæð á viku eða meira. Byggingarhraðinn geti því verið tvöfaldur á við steinsteyptar bygg­ing­ar. Í steyptum byggingum þurfi að steypa bæði gólf og burðarsúlur eða -veggi en húsin úr krosslímdu einingunum séu líkari býflugnabúum þar sem allir meginhlutar séu úr einingum sem raðað sé saman, útveggir, milliveggir, stigahús, stigar og svo framvegis.

Andrew Waugh og félagar hafa hannað fyrsta íbúðaháhýsið úr krosslímdu timbri sem reist er á Bretlandi og einnig hæstu byggingu heims sem að meginhluta er úr timbri en klædd tígulsteini. Sú bygging stendur í Lundúnum og smíði hennar er nýlokið. Að utan virðist húsið vera venjulegt tígulsteinshús en kjarni þess, burðarvirki, gólf og svo fram­veg­is, er úr krosslímdum, gegnheilum viði. Timbrið var unnið úr meira en 2.000 trjám sem sótt voru í skóga ræktaða á sjálfbæran hátt.

Eikarskógarturninn, Oakwood Tower, er hugmynd að 300 metra háum turni sem risið gæti á undirstöðum menningarmiðstöðvarinnar Barbican Center í Lundúnum. Grunnstoðirnar yrðu úr 2,5 metra þykkum gegnheilum krosslímdum viði.
Skjámynd úr myndbandi The Economist.

Vilja reisa 300 metra timburturn

Víða um heim er verið að taka þessa nýju byggingatækni í notkun í háhýsum, einkum á Norður­löndunum,  í Mið-Evrópu og Norð­ur-Ameríku. Hingað til hefur enginn ráðist í að reisa með þessari aðferð háhýsi hærri en 55 metra. Hæst er Brook Commons byggingin í Vancouver í Kanada. Áður­nefnd­ur Michael Ramage og félagar á rann­sóknarstofnuninni í Cambridge hafa hins vegar í samstarfi við fyrirtæki í Lund­únum sett fram hugmyndir um 300 metra háan timburturn sem reistur yrði á grunni eins frægasta steinsteypumannvirkis Lund­úna, tón- og sjónlistamiðstöðinni Barbican Centre. Turninn kallast Oakwood Tower.

Ramage segir að við hönnun turnsins hafi menn einbeitt sér að heildarformgerð byggingarinnar og hvernig hún skyldi sett saman svo að hún yrði stöðug og stæði undir sér. Hönnuðirnir eru sannfærðir um að það hafi tekist vel. Grunn­stoðirnar yrðu tveggja og hálfs metra þykkar úr gegnheilum, krosslímdum viði. Ramage telur að timburbyggingar muni fara stighækkandi á komandi tíð og sá dagur muni koma að reist verði hundrað metra há timburháhýsi.

Stökkið upp í hundrað metra verður ekki auðhlaupið, meðal annars vegna þess að lítið er enn vitað um kostnaðinn við smíði slíkra bygginga. Kostnaðinum ætti þó að mega ná töluvert niður með því að setja byggingarnar saman úr stórum verksmiðjuframleiddum einingum. Eftir er líka að sannfæra þéttbýlisbúa um að timburháhýsi geti ekki fuðr­að upp í eldi eins og hver annar eldiviður. 

Timbur er og hefur verið mikið notað í lægri byggingar enda hagkvæmur og aðlaðandi efniviður. Ef skipulagsyfirvöld leggja blessun sína yfir áformin gætum við átt eftir að sjá miklu hærri timburblokkir á komandi árum. Þess má að lokum geta að nú þegar er farið að nota krosslímdar timbureiningar í íslenskar byggingar. Dæmi um það er nýtt hótel Fosshótela í Mývatnssveit.

Myndbandið: Wooden skyscrapers could be the future for cities | The Economist

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson


Fosshótel Mývatn er reist úr krosslímdum timbureiningum. Mynd: Fosshótel.
banner4