Fréttir

02.02.2018

Rætt um iðnvið á Morgunvaktinni

Notkun grisjunarviðar í kísilvinnslu hefur margvíslega kosti

  • Asparskógur í Múlakoti. Mynd: Hrafn Óskarsson

Ísland hefur það umfram flestar aðrar þjóðir að eiga nóg af landi sem ekki er í notkun og nýta mætti til skógræktar. Timbur verður aðalhráefnið í lífhagkerfi framtíðarinnar þegar olíu- og kolanotkun heyrir sögunni til. Iðnviðar má afla bæði með því að nýta afgangsefniu eins og grisjunarvið og að rækta sérstaka iðnviðarskóga. Þetta var til umræðu á Morgunvaktinni á Rás 1.

Ágúst Ólafsson fréttamaður ræddi við tvo starfsmenn Skógræktarinnar, þá Brynjar Skúlason og Pétur Halldórsson, um möguleikann á því að nota grisjunarvið úr íslenskum skógum sem iðnvið í kísilverksmiðjum hérlendis. Fram kom að um 3.200 rúmmetrar á ári hefðu verið seldir til Elkem á Grundartanga undanfarin ár og mögulegt væri að afgreiða talsvert meira. Hagkvæmast væri að nýta þar við af Suður- og Vesturlandi en nú væru að opnast möguleikar á því að nýta grisjunarvið af Norður- og Austurlandi í nýrri verksmiðju PCC á Bakka við Húsavík.

Nýting grisjunarviðar í kísilverksmiðjum hérlendis hefur margvíslega kosti enda er þá notað efni sem ella lægi gjarnan og rotnaði á skógarbotni eftir grisjun skóganna. Sala grisjunarviðar liðkar líka til fyrir því að bolmagn sé til að grisja skógana og kolefnið sem myndi losna ef bolirnir rotnuðu í skóginum nýtist í staðinn til að minnka þá losun sem yrði vegna brennslu á innfluttum iðnviði.

Óformlegar viðræður hafa farið fram milli Skógræktarinnar og PCC um mögulega sölu grisjunarviðar til verksmiðjunnar á Bakka. Líkt og var þegar fyrst var rætt um sölu viðar til Elkem ríkir nokkur óvissa um hvernig íslenska timbrið henti framleiðslunni á Bakka og ekki hægt að svara til um það fyrr en ofnarnir þar eru komnir í gang og mögulegt að gera prófanir.

En iðnviður er ekki eingöngu grisjunarviður. Um allan heim er vaxandi spurn eftir iðnviði og meira og meira er hugað að því að rækta sérstaka iðnviðarskóga þar sem notast er við hraðvaxta trjátegundir. Dæmi um slíka trjátegund er alaskaösp sem rækta mætti eins og hverja aðra ræktunarplöntu á gjöfulu landi. Ef Íslendingar ætla að eiga nóg af hráefni í lífhagkerfi framtíðarinnar verður að huga að aukinni skógrækt í landinu.

Hlusta má á viðtalið á vef Ríkisútvarpsins.

 
banner3