Fréttir

30.11.2017

Túrbóskógrækt og stærri verndarsvæði málamiðlun nytja og verndar

Aukinn loftslagsvandi gæti aukið þörfina á róttækari aðgerðum í skógrækt

  • „Túrbótrjátegundirnar“ framleiða allt að 50 prósentum meira en hefðbundnu sænsku tegundirnar, vaxa hraðar og binda meira kolefni. Sitkagreni myndar 25 rúmmetra viðar á hektara á ári, um tvöfalt meira en rauðgreni.

Í nýju myndbandi frá Future Forests í Sví­þjóð er lögð til þríþætt leið til að sameina markmið náttúruverndar og skógræktar í landinu. Gert er ráð fyrir verndarsvæðum af ákveðinni lágmarksstærð í nytjaskógum til að vernda villtar tegundir og á hinn bóginn verði gjöfular trjátegundir eins og sitkagreni og stafafura notaðar til að ná hámarksframleiðslu skóganna og hámarks­bindingu koltvísýrings.

Sænski landbúnaðarháskólinn SLU hleypti Future Forests af stokkunum sem rann­sóknar­verkefni 2009 í samvinnu við tækniháskólann í Umeå og skógrannsóknar­stofnun­ina Skogforsk. Leiðarljós verkefnisins var að skógurinn væri nauðsynlegur öllu fólki. Síðan hefur verkefnið þróast yfir í að vera eitt af fjórum helstu stefnumótunartækjum skólans til framtíðar.

Núningur verndar- og nýtingarsjónarmiða

Átök hafa verið um skógana í Svíþjóð á undanförnum árum milli verndar- og nýtingarsinna og þau hafa heldur harðnað en hitt með vaxandi umræðu um loftslagsvandann. Verndarsinnar berjast fyrir því að dregið verði úr nýtingu skóganna og skógar látnir í friði, bæði til að vernda tegundir lífvera í skóginum og til að skógarnir geti bundið kolefni í friði. Skógnýtingarsinnar benda aftur á móti á að í gömlum skógi sé engin nettóbinding enda losni þar jafnmikið kolefni með rotnandi efni og það sem binst í nývexti. Allt sem nú sé gert úr olíu megi gera úr trjám og því verði að auka nýtingu trjáviðar í stað olíu.

Verndarsinnar hafa einnig barist gegn notkun innfluttra trjátegunda í skógum Svíþjóðar. Enn eru þær tvær tegundir langalgengastar sem hingað til hafa mest verið ræktaðar, rauðgreni og skógarfura, en í ljós hefur komið að gjöfulli tegundir eins og sitkagreni og stafafura vaxa miklu hraðar, mynda því miklu meiri við og binda þar með miklu meiri koltvísýring úr andrúmsloftinu. En rök verndarsinna gegn notkun þessara tegunda hafa meðal annars verið þau að með þeim sé líffjölbreytni sænskra skóga stofnað í hættu, ásýnd skóganna verði önnur.

Skogens roll i det nya klimatet

Mögulegt að auka bæði vernd og nýtingu

Í myndbandi Future Forests, Skogens roll i det nya klimatet, er því varpað fram að kannski verði skógurinn lykillinn að lausninni á loftslagsvandanum. „Hlutverk skógarins í nýja loftslaginu,“ segir í titlinum. Bent er á að á báðum endum umræðunnar hafi fólk hert á vísunum til loftslagsvandans í röksemdafærslu sinni. Nauðsynlegt sé að færa hópana nær hvorn öðrum enda hafi Svíþjóð sett sér það markmið að verða kolefnishlutlaust árið 2045. Í Svíþjóð bindi nýr skógur kolefni í um 120 ár en síðan dragi mjög úr bindingunni og skógurinn hætti að gera gagn fyrir loftslagið.

Rannsóknir Future Forests sýna að til að ná mestu mögulegu bindingu í sænsku skógunum væri best að hætta öllu skógarhöggi og leyfa skógunum að vaxa í friði. Þessi áhrif yrðu þó einungis tímabundin. Auk þess myndi slík aðgerð frysta eina helstu atvinnugrein landsins, skógariðnaðinn. Í staðinn er sagt: Ímyndum okkur að við gætum bæði aukið bindingu skóganna og nýtt þá. Og hér gera Svíarnir létt grín að sjálfum sér og líkja sænska skógariðnaðinum við Volvo-bifreið. Hvort tveggja snúist örugglega fram veginn. Svíar geti áfram ekið sínum Volvo. En hvað ef hægt væri að fínstilla Volvo-inn og fá meira út úr honum? Túrbóskóg? Einu sinni dreymdi alla Svía um Volvo Turbo.

Tomas Lundmark, prófessor í skógarnytjum, í skógi með jafngamalli skógarfuru og stafafuru. Samanburður á vexti tegundanna tveggja  í sænskum skógum sýnir svart á hvítu hve miklu gjöfulli stafafuran er. Hún gefur því bæði meiri afurðir, til dæmis til pappírsframleiðslu, og bindur mun meiri koltvísýring úr andrúmsloftinu.

Hægt að auka viðarmyndun og bindingu verulega með gjöfulli tegundum

Þá birtist Tomas Lundmark, prófessor í skógarnytjum, í myndbandinu og klappar lófa á stofninn á efnilegu stafafurutré. Stafafura og sitka­greni eru túrbótré, segir hann, og jafnframt er nefnd blendingsösp sem er blendingur evrópskrar blæaspar og amerískrar nötur­aspar (Populus tremula x P. tremuloides). Þessar túrbótrjátegundir framleiði allt að 50 prósentum meira en hefðbundnu sænsku tegundirnar, vaxi hraðar og bindi meira kolefni. Sitkagreni myndi 25 rúmmetra viðar á hektara á ári, um tvöfalt meira en rauðgreni. Svipaða sögu sé að segja frá fleiri löndum svo sem Þýskalandi þar sem degli vaxi mun betur en innlendar tegundir. Sú tegund geti líka nýst í Svíþjóð, að minnsta kosti í sunnan­verðu landinu, og jafnvel komið í stað rauðgrenis ef það tekur að láta undan vegna loftslagsbreytinga.

Eins og er verður ekki séð að Svíar geti stóraukið ræktun túrbótegundanna í skógum sínum vegna andstöðu heima fyrir og alþjóðlegra skuldbindinga um náttúruvernd. Camilla Sandström stjórnmálafræðiprófessor bendir hins vegar á að eftir því sem loftslagsvandinn eykst aukist þörfin fyrir áhrifaríkari aðgerðir. Á endanum geti það orðið nauðsyn að grípa til mjög stórtækra lausna og taka þar með vissa áhættu.

Ef ráðist væri í stórfelldra og einhæfa ræktun gjöfulla trjátegunda drægi það úr líffjölbreytni í viðkomandi skógi, segir Jean-Michel Roberge vistfræðingur sem hefur rannsakað þessi áhrif í verkefninu Future Forests. Niðurstöðurnar segir hann sýna að bæði megi auka framleiðslu og bindingu skóganna og stuðla að verndun líffjölbreytni. Horft er til þess að skipuleggja þrenns konar skóglendi, hefðbundinn sænskan nytjaskóg, túrbóskóg með gjöfulum tegundum og í þriðja lagi skóg sem látinn er alveg í friði. Friðaði skógurinn yrði mótvægi við nytjaskóginn til að vernda villtar teg­und­ir og líffjölbreytni. Þetta er kallað „triad skogsbruk“ á sænsku sem við gætum þýtt með „þrenningarskógrækt“.

Stubbspætan sem er á válista í Svíþjóð þarf að minnsta kosti 40 hektara samfellds skóglendis með ríkulegum lauftrjám til að þrífast. Vernduð skógarsvæði þurfa að ná ákveðinni stærð til að nýtast villtum lífverum. Fjölgun slíkra verndarsvæða gæti auðveldað skógrækt með gjöfulum trjátegundum annars staðar.

Fjölgun skógverndarsvæða til verndar villtum lífverum

Roberge tekur dæmi um stubbspætuna (Dryobates minor) sem er á válista í Svíþjóð. Hún þurfi að minnsta kosti 40 hektara samfellds skóglendis með ríku­legum lauftrjám til að þrífast. Vernduð skógarsvæði þurfi þannig að ná ákveðinni stærð til að nýtast vel villtum lífverum. Því sé hugmyndafræðin sú að skipuleggja slík verndarsvæði nógu víða til að stunda megi túrbóskógrækt í friði annars staðar. Roberge vill ekki staðhæfa að þetta sé hin eina sanna lausn og gera þurfi frekari vísindalegar rannsóknir.

Eftir sem áður stendur sú staðreynd að skógar jarðarinnar geta bundið mikið kolefni. Þeir geyma nú þegar í sér þriðjung þess kolefnis sem menn hafa losað með brennslu jarðefnaeldsneytis. Skógareyðing vegna landbúnaðar er vanda­mál í heiminum og til hennar er rakinn fimmtungur allrar losunar á jörðinni sem er meira en öll losun frá samgöngum.

Auðveldara er um að tala en í að komast að yfirfæra sænsku uppskriftina á allan heiminn. Þar eru mörg ljón í veginum, réttindamál, eignarhald og hver eigi heimtingu á að njóta þess arðs og þjónustu sem skógurinn gefur.

Undir lok myndbandsins talar Peter Holm­gren, forseti CIFOR, alþjóða­mið­stöðv­ar skógrannsókna. Hann bendir á að Svíþjóð hafi mikla sérstöðu með sinn rótgróna skógariðnað og stefnu í skógræktarmálum. Þjóðin hafi mikla reynslu af skógarnytjum og hafi náð miklum árangri við að auka framleiðni skóga. Markmiðið með aukinni framleiðni tengdist ekki loftslagsmálum í upphafi heldur arðsemi. Viðarmagn í sænsku skógunum hefur tvöfaldast á undanfarinni öld og vöxturinn sömuleiðis. Þess vegna hafi skógarnir bæði getað bundið meira kolefni og gefið meiri afurðir.

Auðveldara sé þó um að tala en í að komast að yfirfæra sænsku uppskriftina á allan heiminn. Þar séu mörg ljón í veginum, réttindamál, eignarhald og hver skuli eiga heimtingu á að njóta þess arðs og þjónustu sem skógurinn gefur. Engu að síður séu næstum alls staðar mikil tækifæri til að auka nytjar úr skógum. Camilla Sandström bendir á að annars vegar þurfi stjórnvöld að setja stefnu um hvert skuli stefna og hins vegar þurfi að gera neytendum kleift að taka upplýstar ákvarðanir í þágu loftslagsins, ekki síst við kaup á vörum og þjónustu. Neytendur þurfi að fá að vita hvað sé gott fyrir loftslagið.

Myndbandið endar á þeim skilaboðum að umræðan þurfi að halda áfram. Við þurfum að tala um skóginn!

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson
banner3