Fréttir

28.11.2017

Nýtt tölublað Laufblaðsins komið út

Upplýsingar um jólatrjáasölu skógræktarfélaganna og margt fleira

Skógurinn í Brynjudal í Hvalfirði var formlega opnaður sem Opinn skógur laugardaginn 16. september og er hann sextándi skógurinn sem opnaður er undir merkjum verkefnisins Opins skógar. Þetta er meðal efnis í nýútkomnu fréttabréfi Skógræktarfélags Íslands, Laufblaðinu.

Í tilefni opnunarinnar í Brynjudal var efnt til hátíðardagskrár í skóginum með skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Veðrið var ekki upp á sitt allra besta við opnunina, segir í Laufblaðinu, en í skógarskjólinu skiptir það minna máli en ella og nutu gestir útiverunnar. Hófst hátíðardagskráin á því að klippt var á borða og skógurinn þar með formlega opnaður. Þetta gerðu þeir Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, og Sigurður M. Harðarson, umhverfisstjóri Icelandair Group sem er bakhjarl Opinna skóga. Að loknum stuttum ávörpum þeirra Jónatans og Sigurðar tók við skemmtidagskrá í skóginum. Sirkus Íslands kom og sló á létta strengi með gestum, sérstaklega yngri kynslóðinni, en einnig gátu krakkar reynt sig við þrautabraut sem búið er að koma upp í skóginum.

Af öðru efni Laufblaðsins má nefna frásögn af fræðsluferð til Bresku-Kólumbíu og Alberta í Kanada sem farin var í september. Minnst er aldarafmælis Einars G.E. Sæmundsens sem var framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur 1948-1969. Fjallað er um aðalfund félagsins sem haldinn var á Stórutjörnum í Ljósavatnsskarði í lok ágúst og áhugaverð grein er í blaðinu um skógræktarverkefni í Austur-Húnavatnssýslu sem leik- og grunnskólanemendur hafa tekið virkan þátt í. Sagt er frá árangursríkri viðleitni Skógræktarfélags Kópavogs til að fjölga í félaginu, endurvinnsluskógi Skógræktarfélags Reykjavíkur á Esjumelum og jafnframt eru í Laufblaðinu upplýsingar um þau félög sem selja jólatré fyrir jólin og bjóða fólki að koma og höggva eigin tré.

Lesa má öll útgefin tölublöð Laufblaðsins á vef Skógræktarfélags Íslands, skog.is, en hér er það nýjasta:
banner5