Fréttir

23.11.2017

American Forests styður við skógrækt á Íslandi

45.000 tré gróðursett á Eskifirði og við Úlfljótsvatn á þremur árum

  • Þátttakendur í heimsmóti skáta 2017 við gróðursetningu í landi Skógræktarfélags Íslands að Úlfljótsvatni. Mynd: Borja Rodríguez Herrero.

Bandarísku skógverndar- og skógræktar­samtökin American Forests hafa tekið saman höndum með Skógræktarfélagi Íslands um gróðursetningu 15.000 trjá­plantna á Íslandi í þrjú ár, alls 45.000 plöntur. Gróðursett erá tveimur stöðum, á Eskifirði og við Úlfljótsvatn.

Þetta verkefni er hluti af víðtækara sam­starfi American Forests við sjóðinn Alcoa Foundation. Samtökin American Forests hafa starfað að skógverndar- og skóg­ræktar­málum í yfir 140 ár. Þetta eru ein elstu, ef ekki elstu, náttúruverndarsamtök í Bandaríkjunum og ef aðeins er litið til ársins 1990 hafa til þessa dags verið gróðursettar yfir 50 milljónir trjáplantna á vegum samtakanna sem stuðlað hafa að endurhæfingu skóglendis í öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna og nærri 50 öðrum löndum í heiminum.

Á hverju ári eru gróðursettar milljónir trjáplantna á vegum American Forests með stuðningi almennings, sjóða, fyrir­tækja og stofnana. Stórfyrirtæki á borð við Alcoa, Bank of America og fleiri styðja stór verkefni á vegum samtakanna sem leitt hafa af sér endurhæfingu skóglendis á tugum, ef ekki hundruðum þúsunda hektara með tilheyrandi já­kvæð­um áhrifum á vistkerfi, vatnasvið og annað sem skógurinn leiðir af sér. American Forests vinna líka að því að hvetja til aukinnar notkunar trjágróðurs í þéttbýli til að gera þéttbýlislífið sjálfbærara, umhverfið fallegra og byggilegra.

Sem fyrr segir hafa samtökin American Forest nú samstarf við Skógræktarfélag Íslands, sem einnig eru rótgróin sam­tök og með elstu náttúruverndarsamtökum á Íslandi, stofnuð 1930. Félagið er móðurfélag skógræktarfélaga um allt land og markmið þess er að auka áhuga landsmanna á skógrækt, stuðla að skógræktarverkefnum og eflingu land­gæða. Við Úlfljótsvatn er gróðursett á landi í eigu Skógræktarfélags Íslands en verkefnið á Eskifirði er unnið í sam­vinnu við Skógræktarfélag Eskifjarðar. Áður hefur Skógræktarfélag Íslands fengið stuðning úr þessari sömu átt, fyrst 2011 og aftur 2015, þá í samstarfi við Skógræktarfélag Reyðarfjarðar.

Nú þegar hafa verið gróðursett 15.000 tré á þessum tveimur svæðum fyrir tilstilli þessa verkefnis. Fram kemur í frétt á vef American Forests að gróðursett sé í land sem eitt sinn hafi verið vaxið birkiskógi. Slíkar aðgerðir séu nauðsyn­legar á Íslandi, ekki aðeins til að trjáræturnar bindi jarðveginn og komi í veg fyrir rof heldur verji skógur landið fyrir áföllum af völdum ösku- og gjóskufalls í eldsumbrotum.

Sjálfboðaliðar vinna að þessum verkefnum og í sumar sáu sjálfboðaliðar European Voluntary Service um mestalla gróðursetninguna á Eskifirði ásamt heimafólki úr Skógræktarfélagi Eskifjarðar og Jóni Ásgeiri Jónssyni, starfsmanni Skógræktarfélags Íslands. Við Úlfljótsvatn gróðursettu sjálfboðaliðar frá sömu samtökum einnig í sumar auk þess sem hluti plantnanna var nýttur í gróðursetningu með fulltrúum frá sendiráði Bandaríkjanna og með skátum á heims­móti skáta sem haldið var á Úlfljótsvatni í sumar. Þar tók einn sjálfboðaliðanna, Borja Rodríguez Herrero, með­fylgj­andi mynd af tveimur þátttakendum í heimsmótinu.

Skógareyðing hefur verið í gangi á Íslandi frá landnámi með þeim afleiðingum að trjágróður vex aðeins á um tveimur prósentum landsins. Í verkefninu sem American Forests styrkja með hjálp frá Alcoa Foundation er markmiðið að rækta upp birkiskóga á ný og verja þá skógrækt sem fyrir er á svæðunum tveimur. Með girðingum er skóglendið varið fyrir sauðfjárbeit og ýtt undir sjálfgræðslu skóga einnig.

Texti: Pétur Halldórsson
Mynd: Borja Rodríguez Herrero
banner3