Fréttir

16.11.2017

Aukinn þvermálsvöxtur með því að grisja fyrr?

Nýtt myndband um umhirðu ungs skógar

  • Lauslegar athuganir benda til þess að með því að grisja fyrr en venjan er aukist þvermálsvöxtur lerkisins. Sauðfé má beita til að hindra vöxt upp af rótum trjánna sem felld voru.

Mögulega mætti auka þvermálsvöxt í ung­um skógi með því að grisja fyrr en venjan hefur verið. Á sauðfjárjörðum má beita slíkan skóg eftir grisjun til að hindra vöxt greina eða teinunga af rótum þeirra trjáa sem grisjuð voru burt. Óvísindaleg athugun í þessa veru var gerð á skóg­ræktar­jörð í Fljótsdal og sagt er frá henni í nýju mynd­bandi Skógræktarinnar sem Hlynur Gauti Sigurðsson skógræktarráðgjafi hefur unnið.

Allra hagur er að huga að mikilvægi um­hirðu í ungum skógum. Trén verða stór og stælt og umhirðan við ungu trén er frábær heilsubót fyrir fólkið með verkfærin. Með þessum störfum eykst verð­mæti skóg­ar­ins umtalsvert. Þegar trén eru um mannhæðar há felst umhirðan aðallega í tvítoppa­klippingu og greina­hreins­un. Bara smástund með hverju snyrtu tré gerir gæfumuninn fyrir skóginn.

Þegar skógurinn er kominn yfir mannhæð má fara huga að vali á trjám sem eru álitleg til viðarnytja. Það þýðir að lökustu trén þarf að fella til að gefa þeim sem eftir standa meira pláss til að vaxa. Ef við bíðum of lengi með þessa aðgerð getur verkið orðið erfitt og jafnvel óyfirstíganlegt, sérstaklega ef skógurinn er mjög umfangsmikill. Að sama skapi má ekki heldur fara allt of snemma, þótt það sé vissulega léttara. 

Á Fljótsdalshéraði er skógræktarhefðin orðin sterk og margir skógar þar orðnir bæði stórir og gjöfulir. Á mörgum sauðfjárbýlum, þar sem einnig er skógrækt, hafa bændur beitt skógana sína, bæði til hagsbóta fyrir skóginn og féð.

Teknir voru út þrír fimmtíu fermetra mælifletir. Meðalþvermál hefur rúmlega tvöfaldast og er komið upp í 8,3 sentímetra, á meðan trén hafa að jafnaði hækkað um fjórðung eða einn og hálfan metra.

Á dögunum fóru Hlynur Gauti Sigurðsson og Sherry Curl skógræktarráðgjafar, sem störfuðu bæði á sínum tíma fyrir Héraðs- og Austurlandsskóga, til að skoða reit á jörðnni Melum í Fljótsdal. Þar var gróður­sett rússalerki í kargamel á aldamótaárinu 2000. Eftir fimmtán ár var farið í reitinn til að fella lökustu trén, jafna bil á milli trjáa og þar af leiðandi stuðla að tilætluðum árangri með réttum þéttleika. Afraksturinn var góður, en hefði getað verið betri ef reiturinn hefði verið snyrtur nokkru fyrr. Reiturinn er sérstakur fyrir þær sakir að hann er einn fárra reita á Héraði þar sem skógurinn var í gisnara lagi og trén smærri en venja þykir fyrir inngrip af þessu tagi. Fyrir vikið virtist reiturinn fremur rytjulegri en við eigum að venjast. Af ýmsum ástæðum þykir vænlegra að fara inn í reitina ögn eldri og stærri en þarna var gert.

Í maí 2015 hafði verktakinn lokið sér af og úttekt fór fram. Teknir voru út þrír fimmtíu fermetra mælifletir og niður­stöð­ur úr þeim mælingum sýndu að þéttleikinn í skóginum var 1.600 tré á hektara, meðalþvermál i brjósthæð var 4,1 sentímetri og meðalhæð 3,7 metrar. Af því mætti álykta að skógurinn hafi verið með fullsmáum trjám fyrir þetta inngrip.

Skógurinn virtist nú hinn heilbrigðasti. Meðalþvermál hefur rúmlega tvöfaldast og var komið upp í 8,3 sentímetra, á meðan trén höfðu að jafnaði hækkað um fjórðung eða einn og hálfan metra.

Þessi athugun var fremur óformleg og ekki hávísindaleg. Ýmsu var velt við sem vert er að skoða. Inngrip, fyrr en venjan er, eykur mögulega þvermálsvöxt viðarins. Væntanlega er verið að opna skógana fullmikið en með stýrðu og léttu beitarálagi má halda niðri þeim greinum sem annars yxu upp af líflegum stubbum fallinna trjáa. Ef farið er í skógana á yngri stigum auðveldum við okkur verkið til muna og hægt er að fara hraðar yfir skógana.

Dýrð í ungum lerkiskógum

Texti og myndband: Hlynur Gauti Sigurðsson
banner4