Fréttir

06.11.2017

Bein útsending frá ráðstefnu ThinkForest

Litið til hringrása evrópska lífhagkerfisins

Bein útsending verður á morgun, þriðju­daginn 7. nóvember, frá ráðstefnu ThinkForest þar sem fjallað verður um hringrásir evrópska hagkerfisins og nýjar hugmyndir um hvernig koma skuli slíku hagkerfi á.

ThinkForest er vettvangur evrópsku skógastofnunarinnar EFI fyrir samræðu um skógar­mál milli forystufólks í stjórnmálum, vísindum, skógrækt og skógarnytjum.

Ráðstefnan skiptist í morgunfund sem hefst kl. 8.30 að íslenskum tíma og síðdegisfund sem hefst kl. 12. Morgunfundinum stýrir Göran Persson, formaður ThinkForest og fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar. Þar tala Marijana Petir, þingmaður á Evrópu­þinginu, John Bell sem situr í Evrópuráðinu, Esko Aho ráðgjafi um stefnumótun hjá EFI, og Lauri Hetemäki, fjármálastjóri EFI.

Í lok morgunfundarins verða pallborðs­umræður um hlutverk borga og héraða í lífhagkerfi. Umræðunum stjórnar Christian Patermann, fyrrverandi framkvæmdastjóri líftækni-, landbúnaðar- og matvæla­rann­sókna hjá framkvæmdastjórn Evrópu­sam­bands­ins. Hann er stundum kallaður „faðir“ lífhagkerfisstarfsemi Evrópusambandsins en hefur líka setið í þýska lífhagkerfis­ráðinu. Í pallborði verða Cecil Konijnendijk van den Bosch frá háskólanum í Bresku-Kólumbíu, finnski þingmaðurinn og skógareigandinn Hanna Kosonen og Janez Potočnik, aðstoðarformaður sérfræðingaráðs Sameinuðu þjóðanna um auðlindamál, UN International Resource Panel.

Á síðdegisfundinum verður sjónum einkum beint að horfunum fyrir hringrásir evrópska lífhagkerfisins. Inngangs­fyrir­lestur heldur Georg Winkel sem stýrir sjálfbærniverkefnum hjá EFI. Í pallborði verður sérstaklega fjallað um sjónar­mið einstakra svæða og þar sýrir umræðum Joanna Dupont-Inglis, formaður lífhagkerfisráðs Evrópu­sam­bands­ins, EU Bioeconomy Panel. Í pallborðinu verða Leire Barañano frá Neiker-Tecnalia sem er stofnun Baskalands um landbúnaðar­ransóknir og þróun, Daniela Kleinschmit frá háskólanum í Freiburg í Þýskalandi, Joachim Kreysa frá sameiginlegri rannsóknarmiðstöð framkvæmdastjórnar Evrópusambandins, European Commission Joint Research Centre, og Stefania Trenti frá ítölsku bankaasamsteypunni Intesa Sanpaolo.

Takið þátt í umræðunni

Leggið ykkar til umræðnanna á Twitter og notið myllumerkið #thinkforest

Verkefnið ThinkForest er rekið með framlögum stefnumótunarsjóðs evrópsku skógastofnunarinnar EFI. Framlög renna í sjóðinn frá stjórnvöldum í Austurríki, Tékklandi, Finnlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Írlandi, Noregi, Svíþjóð og á Spáni.

Texti: Pétur Halldórsson
banner3