Fréttir

15.08.2017

Skógardagur Norðurlands í Kjarnaskógi á laugardag

Nýtt grill- og leiksvæði á Birkivelli formlega tekið í notkun

  • Birkivöllur léttir á eldra grill- og leiksvæði á Steinagerðisvelli í Kjarnaskógi þar sem oft var þröng á þingi. Svæðið er vel búið leiktækjum og aðgengi er gott fyrir alla.

Á Skógardegi Norðurlands sem  haldinn verður á laugardag í Kjarnaskógi verður nýtt útivistar- og grillsvæði á og við Birkivöll formlega tekið í notkun. Eiríkur Björn Björg­vinsson bæjarstjóri ávarpar afmælis­barnið og skrifað verður undir samning um nýjan Yndisgarð sem meiningin er að koma upp í skóginum með úrvali skrautrunnateg­unda.

Fræðsla verður um Yndisgarðinn í „fundar­sal“ sem útbúinn hefur verið undir greinum stórra grenitrjáa í skóginum. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur sýnir ýmsar sveppategundir sem lifa í skóginum. Ólafur Oddsson fræðslufulltrúi Skógræktarinnar, kennir réttu handbrögðin við tálgun og fólk fær að prófa að tálga töfrasprota og fleira. Skátar kynna hátíð sem fer fram á Hömrum um kvöldið og svo verður auðvitað ketilkaffi, lummur, popp, svaladrykkir, sveppasúpa, ratleikur, fræðsluganga um Birkivöll og nágrenni ásamt fleiru.

Vönduð leiktæki úr viði eru á Birkivelli..

Kjarnaskógur er í fremstu röð útivistarsvæða í skógi á Íslandi og styrkir sig enn í þeim sessi með því sem komið hefur verið upp á Birkivelli undanfarin ár. Þar eru fjórir fullbúnir strandblakvellir sem mikið eru notaðir, völundarhús, snyrting­ar og bílastæði, tvö borðtennisborð, kirsuberjagarður með 70 rósakirsitrjám, ævintýraskógur, fjöldi trjátegunda, uppblásinn ærslabelgur, verið er að byggja upp smágolfvöll, hjólastólaróla er á Birkivelli og fjölbreytileg leiktæki önnur, áðurnefndur fundarsalur og auðvitað grillhúsið nýja með bæði rafmagns­lögn­um og rennandi vatni.

Loks er vert að geta þess að nú hefur verið útbúinn létthringur í Kjarnaskógi sem fær verður öllu fólki, háum sem lágum, ungum sem gömlum, gangandi eða í hjólastól. Hringur þessi liggur m.a. um hinn nýja Birkivöll.

Að Skógardegi Norðurlands standa Skógræktarfélag Eyfirðinga, Skógræktin, Félag skógarbænda á Norðurlandi, Sólskógar og Akureyrarbær.Í sumar var þessi „ærslabelgur“ settur upp rétt við Birkivöll.

Tvö steinsteypt borðtennisborð hafa verið sett upp í skóginum.

Snyrtingar eru í þessu fallega húsi sem klætt er með viði úr Kjarnaskógi.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson
banner4