Fréttir

15.08.2017

Birkiryð snemma á ferð

Auknar plágur geta haft ófyrirséð áhrif á birkið til framtíðar, segir skógarvörður

  • Rúnar Ísleifsson, skógarvörður á Vöglum í Fnjóskadal, segir framtíðarhorfur birkisins nokkuð óljósar, ekki síst ef litið er til þess hvað gerist þegar óværur fara að vinna saman á birkinu.

Birkiryð er óvenjusnemma á ferðinni á Norðurlandi og eru skógar farnir að taka á sig haustlegan blæ. Skógarvörður segir að plágur leggist í auknum mæli á birkið og það geti haft ófyrirséð áhrif til framtíðar. Frá þessu var sagt í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins.

Fréttin er á þessa leið:

Birkryð er sveppur sem leggst á birkitré og gefur laufunum gulan lit. Algengt er að sveppurinn geri vart við sig síðla sumars og nái hámarki í september. Síðustu ár hefur hann þó sést fyrr og nú er svo komið að margir skógar á Norðurlandi eru haustlegir á að líta. Vaglaskógur er til að mynda orðinn mjög gulur og þar muna menn ekki eftir birkiryði jafnsnemma og í ár.

„Ja, maður fer að taka eftir þessu svona upp úr miðjum júlí og það fer svo að verða mjög áberandi í lok júlí. Þetta hefur verið nokkuð mjög algengt hin seinni ár hér á svæðinu en þetta er hins vegar mjög snemma á ferðinni í ár,“ segir Rúnar Ísleifsson, skógarvörður á Vöglum.

Hlýtt veður gerir birkið viðkvæmt fyrir sveppnum sem útskýrir hvers vegna hann hefur færst í aukana. Það dregur úr vexti trjánna og gerir þau viðkvæmari. „Ef þau eru eitthvað veik fyrir og orðin gömul og lasburða gæti þetta alveg haft áhrif á þau og þýtt að þau myndu drepast fyrr en ella.“ Ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af ryðinu einu og sér. Birkið hafi þó í auknum mæli átt undir högg að sækja vegna ýmissa plága sem margar hverjar tengjast hlýrra loftslagi. Því eru framtíðarhorfur nokkuð óljósar.

„Við getum t.d. nefnt birkikembuna sem er farin að leggjast á birkið, reyndar ekki hér en fyrir vestan okkur t.d. í Eyjafirði, Skagafirði og á Suðurlandi. Vel getur verið að þetta fari að hafa áhrif þegar þetta fer að vinna saman,“ segir Rúnar Ísleifsson skógarvörður.
banner5