Fréttir

14.08.2017

Ráðið í stöðu mannauðsstjóra og skipulagsfulltrúa

Björg Björnsdóttir og Hrefna Jóhannesdóttir boðnar velkomnar til starfa

  • Björg Björnsdóttir, nýráðinn mannauðsstjóri Skógræktarinnar, t.v. og Hrefna Jóhannesdóttir, nýráðinn skipulagsfulltrúi Skógræktarinnar, t.h.

Hrefna Jóhannesdóttir, skógfræðingur og skógarbóndi á Silfrastöðum í Skagafirði hefur verið ráðin í hálft starf skipulags­fulltrúa hjá Skógræktinni og Björg Björns­dóttir, verkefnisstjóri hjá Austurbrú, í hálft starf mannauðsstjóra. Skrifstofa Hrefnu verður á Akureyri en Bjargar á Egils­stöðum.

Starf mannauðsstjóra er ný staða hjá Skógræktinni og tilheyrir rekstrarsviði stofnunarinnar. Meðal verkefna Bjargar verður að þróa og móta þetta nýja starf. Fyrir liggur að uppfæra og útfæra ýmsar starfsmannaupplýsingar og -handbækur og kynna starfsfólki. Mannauðsstjóri hefur yfirumsjón með öryggis- og vinnuverndarmálum starfsmanna, símenntun og starfsþróun, þróun mannauðsstefnu, umhverfisstefnu, jafnréttisstefnu o.fl. Björg Björnsdóttir hefur meistarapróf í hagnýtri ritstjórn og útgáfu frá Háskóla Íslands og meistarapróf í fréttamennsku frá Strassborg í Frakklandi. Hún hefur einnig aflað sér menntunar á sviði mannauðsmála, stjórnunar og ímyndarmála. Hún hefur unnið margvísleg störf á þessum vettvangi, síðustu árin sem verkefnisstjóri hjá Austurbrú. Hún tekur við starfi mannauðsstjóra Skógræktar­innar 1. október og hefur skrifstofu í höfuðstöðvunum á Egilsstöðum.

Hrefna Jóhannesdóttir tekur við starfi að skipulagsmálum af Hallgrími Indriðasyni sem hættir störfum í þessum mánuði fyrir aldurs sakir. Hrefna er skógarbóndi á Silfrastöðum í Skagafirði. Hún hefur meistarapróf í skógfræði frá landbúnaðarháskólanum að Ási í Noregi og margvíslega reynslu í faginu, bæði héðan að heiman og frá Noregi. Hún hefur starfað sem ráðgjafi hjá Norðurlandsskógum og sérfræðingur á Rannsóknastöð Skógræktar Mógilsá en síðustu ár sem sérfræðingur hjá Energigården í Noregi. Þar hefur hún unnið að ýmsum verkefnum sem tengjast orku- og umhverfismálum, sjálfbærri nýtingu endurnýjanlegra auðlinda og orkusparandi aðgerðum. Hrefna tekur við starfi skipulagsfulltrúa 1. september og hefur skrifstofu í Gömlu-Gróðrarstöðinni á Akureyri.

Umsækjendur um starf mannauðsstjóra Skógræktarinnar voru tveir en fjórir um starf skipulagsfulltrúa. Viðkomandi sviðstjórar stofnunarinnar tóku viðtöl við alla umsækjendur. Skógræktin býður þær Björgu og Hrefnu velkomnar til starfa og óskar þeim velfarnaðar í starfi.

Texti: Pétur Halldórsson
banner1