Fréttir

07.07.2017

Mógilsá óskar frétta af skaðvöldum

Fólk beðið að hafa augun opin fyrir nýjum útbreiðslusvæðum

  • Birkikemba hefur verið að breiðast út um landið undanfarin ár. Lirfan fer inn í laufblaðið sem skorpnar smám saman upp og geta trén orðið brún að sjá þegar mikið er um kvikindið. Mynd: Pétur Halldórsson.

Líkt og fyrri ár óskar Rannsóknastöð skógræktar Mógilsá eftir upplýsingum frá fólki um ástand skóga þar sem fólk á leið um, sérstaklega ef einhver óværa sést á trjánum. Einnig má gjarnan láta vita ef sést til ertuyglu á lúpínu.

Brynja Hrafnkelsdóttir, doktorsnemi og sérfræðingur á Mógilsá, hefur skrifað starfsfólki Skógræktarinnar tölvupóst þar sem hún biður það sérstaklega að hafa augun opin fyrir nýjum pestum á heima­slóðum sínum, en nýir skaðvaldar eins og til dæmis asparglytta og birkikemba virðist vera að dreifa sér hratt um landið um þessar mundir.

Hér fyrir neðan er að finna Excel-skjal sem gæti hjálpað til við skráninguna. Í skjalinu eru þrjú blöð (sheet), eitt sem heitir skaðvaldatafla og er ætlað til að fylla inn í þær skemmdir sem fólk finnur. Hin blöðin eru til upplýsingar. Í útskýr­ingar er leiðbeint um hvernig á að setja í reitinn og í helstu skaðvaldar er listi (byggður á nýlegri bók Guðmundar Halldórssonar og Halldórs Sverrissonar, Heilbrigði trjágróðurs) yfir helstu skaðvalda, skipt niður á trjátegundir. Með þessu kerfi er reynt að  samræma þær upplýsingar sem berast, auk þess sem vonast er til að þetta sé til einföldunar fyrir þau sem senda inn gögn. Allar upplýsingar og hugleiðingar eru hins vegar velkomnar, segir Brynja, sama þótt það sé ekki á þessu töfluformi.

Fullorðin asparglytta. Upplýsinga er sérstaklega óskað um nýja fundarstaði óværu á borð við asparglyttu og birkikembu. Einnig er gott að fá að vita ef ertuygla sést á lúpínu. Mynd: Edda S. Oddsdóttir.

Myndir mega gjarnan fylgja með og geta þær verið mjög gagnlegar til að staðfesta greiningar. Allar myndir eru vistaðar í gagnagrunni þar sem fram kemur hver tók myndina. Gengið er út frá því að myndir sem berast megi nota í fyrirlestra (þar sem ljósmyndara er getið) en óskað verður sérstaklega eftir leyfi ef ætlunin er að nota þær til birtingar, svo sem í Ársriti Skógrækt­arinnar. Ef fólk vill ekki að myndirnar séu notaðar skal þess vinsamlegast getið.

Til aðstoðar við greiningar fylgir stutt saman­tekt sem Edda Sigurdís Oddsdóttir skógvistfræðingur tók saman og hefur að geyma myndir af öllum helstu skordýrum sem valda skaða á trjám hérlendis. Saman­tektin er að miklu leyti byggð á vef Náttúru­fræðistofnunar en þar er líka fróðleg síða um pöddur í náttúrunni sem gott er að skoða til að glöggva sig á hvaða skaðvald­ur er á svæðinu.

Upplýsingar um skaðvalda á trjám og annað sem snertir ástand trjágróðurs skulu sendar Brynju Hrafnkelsdóttur á netfangið brynja@skogur.is.

Texti: Pétur Halldórsson
banner2