Fréttir

05.07.2017

Hvenær setur maður Íslandsmet og hvenær setur maður ekki Íslandsmet?

Tveir settu niður vel á sjöunda þúsund hvor við Mosfell 1992

  • 16102012-(3)

Svo virðist sem franski gróðursetningar­kappinn Antoine Michalet hafi ekki sett Íslandsmet í gróðursetningu eins og greint var frá hér á skogur.is í síðustu viku. Rifjað hefur verið upp að tveir vaskir menn gróðursettu vel á sjöunda þúsund plantna við Mosfell á sælum sumardegi 1992.

Allt þetta tal um met í gróðursetningu verð­ur að taka með þeim fyrirvara að aðstæður eru mjög misjafnar á gróðursetningarstað og misjafnt hversu vel er hægt að búa að gróðursetningarfólki svo afköstin verði sem mest. Víst er þó að fólk sem gróðursett getur sex þúsund plöntur á einum degi er framúrskarandi vinnukraftur og öfugt við það sem halda mætti er að jafnaði samhengi milli mikilla afkasta og góðra vinnubragða. Sá sem nær upp góðum afköstum skilar yfirleitt góðu verki líka.

Björgvin Eggertsson, skógfræðingur og verkefnastjóri hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, fletti upp í gamalli dagbók sem hann gróf upp úr fórum sínum. Þar segir frá degi mikilla afkasta fimmtudaginn 16. júlí 1992. Þetta var á þeim árum, segir Björgvin, sem ekki þótti ástæða til að hætta gróðursetningu í júlí á Suðurlandi enda hafi hiti og þurrkur ekki verið að þvælast fyrir fólki.

16102012-(2)

Gróðursett var úr 67 gata bökkum og í þeim voru 63 plöntur lifandi að meðaltali þannig að fjórar voru taldar dauðar í hverjum bakka. Svo skrifar Björgvin:

„Guðmundur Jónsson plantaði 6.552 plöntum og Helgi Kristinn Halldórsson 6.426 plöntum. Aðrir í hópnum voru að planta frá 2.400 plöntum og upp í 3.300 plöntur. Alls fóru tæplega 25 þúsund plöntur niður hjá þeim 6 einstaklingum sem voru að planta þennan dag. Búið var að raða bökkum með fram vegunum þar sem gróðursett var á milli vega. Allir voru með tvö belti þannig að aldrei skorti plöntur á leiðinni þegar plantað var milli vega. Gróðursett var með plöntustaf eins og notaðir voru áður en geispurnar fóru að ryðja sér til rúms. Dagana á undan höfðu þessir tveir verið að planta tæplega 4.000 plöntum á dag. Daginn eftir voru menn frekar stirðir, en plöntuðu samt fram að hádegi og settu niður 1.260 plöntur á þeim tíma. Allt land var þurrlendi sem hafði verið jarðunnið með TTS-herfi. Plantað var lerki í aðra hverja rás og átti lerkið að skýla þeim trjám sem plantað var nokkrum árum síðar.“

Að sögn Björgvins var unnið þennan afkastamikla dag frá því klukkan níu um morguninn til hálfsjö um kvöldið, tekinn hálftími í mat og kaffi á hlaupum. Þeir Guðmundur og Helgi hafa samkvæmt því gróðursett ríflega 700 plöntur á hverjum klukkutíma.

Meðfylgjandi myndir tók Hreinn Óskarsson af ungmennum við gróðursetningu að Mosfelli haustið 2012 og ekki ólíklegt að þar megi sjá eitthvað af þeim trjám sem afreksmennirnir gróðursettu tuttugu árum fyrr.

Texti: Pétur Halldórsson

banner5