Fréttir

04.07.2017

Nýtt bálskýli risið í Haukadal

Stærra en fyrra skýli og að sjálfsögðu úr íslenskum viði

  • Nýja bálskýlið í Haukadalsskógi er á skjólbetri stað en það gamla, inni í Hákonarlundi. Það er nokkru stærra og getur þjónað stærri sem smærri hópum sem skóginn heimsækja.

Á fallegum degi síðla í júnímánuði lögðu nokkrir starfsmenn Skógræktarinnar hönd á plóginn við smíði nýs bál- eða grillskýlis í þjóðskóginum Haukadal. Nýja skýlið er inni í Hákonarlundi og er ramm­gerðara en eldra skýli sem hrundi undan snjó fyrir nokkru.

Að sögn Trausta Jóhannssonar, skógar­varðar á Suðurlandi, er nýja skýlið kær­komið. Eftir að það eldra hrundi hafi mikið verið spurt hvort ekki yrði sett upp nýtt. Styrkur fékkst úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að endurreisa eldra skýlið en ákveðið var að finna því nýjan stað og skjólbetri inni í Hákonar­lundi.

Sömu verktakar og nú vinna að nýju þjónustuhúsi í Laugarvatnsskógi voru fengnir til að reisa nýja skýlið í Haukadal ásamt  byggingarstjóranum, Ívari Erni Þrastarsyni. Þótt stærra sé er það svipaðrar gerðar og bálskýli í Þjórsárdalsskógi sem reist var að danskri fyrirmynd, strýtulaga og ryður því vel af sér snjó.

Grillskýli í Haukadal (myndband)

Efniviðurinn í skýlið er sitkagreni úr Haukadalsskógi sem unninn var í sögunarmyllu Skógræktarinnar í Þjórsárdal. Vinna við skýlið hófst um miðjan maí en á fallegum degi seint í júní var hóað í starfsfólk Skógræktarinnar á Suður- og Vesturlandi til að leggja hönd á plóginn við klæðingu hússins og fleiri verk. Þar tók Hlynur Gauti Sigurðsson upp efni í skemmtilegt myndband sem sýnir vel aðstæður í Hákonarlundi og lögun nýja bálskýlisins. Og eins og sést í myndbandinu unnu um fimmtán manns þennan dag að þessu þarfa verki.

Bálskýlið í Haukadal stendur á stálfestingum sem smíðaðar voru í stálsmiðju og steyptar niður í jörð. Burðarviðirnir standa því ekki í jörð og ættu því að endast í áratugi, segir Trausti, þótt fyrr kunni að þurfa að endurnýja klæðningar. Skýlið er nú að mestu leyti tilbúið en unnið er við frágang á því og umhverfi þess. Aðgengi verður gott fyrir fatlaða að skýlinu og víst er að þessi bætta aðstaða verður kærkomin enda segir Trausti að mikil umferð sé í skóginn, bæði Íslendinga og erlendra ferðamanna. Skógurinn njóti nálægðarinnar við Geysi en burtséð frá því sæki fólk mikið í Haukadalsskóg, bæði einstaklingar og stærri sem smærri hópar.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndband: Hlynur Gauti Sigurðsson
banner2