Fréttir

12.06.2017

Listaverkasamkeppni evrópsku skógarvikunnar

Opin til þátttöku fyrir 5-19 ára börn og unglinga

Evrópska skógarvikan, European Forest Week, fer að þessu sinni fram í Póllandi dagana 9.-13. október. Í tilefni af henni hefur verið hleypt af stokkunum listaverkasamkeppni sem ætlað er að vekja athygli ungs fólks á skógum Evrópu og þeim gæðum sem skógarnir veita.

Samkeppnin er opin öllum börnum og unglingum á aldrinum 5-19 ára og er ástæða til að hvetja allt skapandi ungt fólk á þessu aldursbili til að taka þátt í henni. Óskað er eftir málverkum eða teikningum sem lýsa þema evrópsku skógarvikunnar þetta árið sem er „Skógar, sameiginleg gæði okkar allra“. Æskilegt er að myndirnar lýsi hugmyndum unga fólksins um evrópska skóga og þeim margvíslega hag sem við höfum af skógunum. Myndunum er ætlað að útbreiða boðskapinn um gæði skóganna meðal Evrópubúa. Vinningsmyndirnar verða bæði settar upp á sýningu á evrópsku skógarvikunni í Varsjá í Póllandi í október og birtar í dagatali sem evrópska skógarvikan gefur út.

Hverjir geta tekið þátt í keppninni?

Myndlistarsamkeppni evrópsku skógarvikunnar er opin börnum og unglingum á aldrinum 5-19 ára. Aldursflokkarnir eru þrír, 5-8 ára, 9-12 ára og 13-19 ára.

Hvernig tekur maður þátt í keppninni?

Tekið er við myndum sem málaðar eru eða teiknaðar með ólíkum aðferðum eða tækni. Þær má vinna í tölvu, með penna, pensli, vaxlitum, kolum, olíu-, akríl- eða vatnslitum. Til að senda inn verk er nóg að skanna þau eða taka af þeim ljósmynd og senda sem JPEG-skrá. Til þess er notað sérstakt þátttökueyðublað sem finna má á vef evrópsku skógarvikunnar, www.fao.org/about/meetings/european-forest-week/art-contest. Valið verður eitt vinningsverk í hverjum aldursflokki og að auki hljóta þrjú verk í hverjum flokki viðurkenningu. Lokafrestur til að skila inn myndum er 31. júlí 2017.

Þessi mynd svissnesku bresku stúlkunnar Julia Kelly sigraði í ljósmyndasamkeppni evrópsku skógarvikunnar 2015. Að þessu sinni er efnt til myndlistarsamkeppni 5-19 ára barna og unglinga..

Hver eru verðlaunin?

Tilkynnt verður um sigurvegara og viðurkenningar á vef evrópsku skógarvikunnar meðan á henni stendur, dagana 9.-13. október 2017. Þá verður líka opin sýning á verkunum í Varsjá og sem fyrr segir birtast þau sömuleiðis í dagatali skógarvikunnar. Þau sem eiga myndir í úrslitum keppninnar fá sent dagatal og sigurvegararnir fá jafnframt sérstakt viðurkenningarskjal.

Frekari upplýsingar

Á vef evrópsku skógarvikunnar má fræðast betur um evrópsku skógarvikuna og skoða nánar þátttökureglurnar í myndlistarsamkeppninni.

Um evrópsku skógarvikuna

Evrópska skógarvikan fer nú fram í fjórða sinn. Vikan er haldin í tengslum við Las2017 (las þýðir skógur á pólsku), sameiginlegt þing skógaráðs UNECE og samtaka skógariðnaðarins, COFFI ásamt Evrópuráði FAO um skógarmál, EFC. Viðburðirnir fara fram í Varsjá í Póllandi og eru pólsk stjórnvöld gestgjafarnir.

Fyrsta evrópska skógarvikan var haldin 2008. Þessi viðburður hefur æ síðan verið mikilvægur vettvangur til að gera skógargeirann sýnilegri og örva umræðu um skóga innan Evrópu og um allan heim. Allir áhugasamir eru hvattir til að nýta sér þá athygli sem evrópska skógarvikan gefur færi á að veita og skipuleggja viðburði staðbundið eða á landsvísu.

Texti: Pétur Halldórsson


banner2