Fréttir

07.06.2017

Skógarorka selur kyndistöðina á Hallormsstað

Þráinn Lárusson, ferðaþjónustufrömuður á Héraði, hefur keypt kyndistöð Skógarorku á Hallormsstað. Hann vonast til að geta boðið íbúum á Hallormsstað að tengjast veitunni líkt og upphaflega var gert ráð fyrir. Þráinn rekur meðal annars Hótel Hallormsstað. Auk hótelsins stefnir hann að því að kynda upp sundlaugina sem þar er.

Þegar sveitarfélagið hætti skólarekstri á staðnum og þar með rekstri sundlaugarinnar kom það mjög niður á rekstri kyndistöðvarinnar. Stöðin hefur ekki getað keypt viðarkurl á viðunandi verði. Ríkisútvarpið sagði frá þessu í fréttum Sjónvarpsins í gærkvöld og fréttin er á þessa leið:

Kyndistöð Skógarorku á Hallormsstað hefur verið rekin með tapi og til stóð til að loka stöðinni í síðasta mánuði meðal annars vegna yfirvofandi skorts á trjákurli. Hóteleigandi á Hallormsstað hefur nú keypt stöðina og er bjartsýnn á að geta rekið hana sjálfur.

Rekstrargrundvöllur hvarf með sundlauginni

Kyndistöðin á Hallormsstað var gangsett fyrir átta árum sem tilraunaverkefni og hefur að mestu verið í eigu Hitaveitu Egilsstaða og Fella og Fljótsdalshrepps. Stöðin hitaði meðal annars sundlaug, íþróttahús og barnaskóla en því hefur öllu verið lokað og Hótel Hallormsstaður notar nú nær alla orku sem stöðin framleiðir eða um 85%. Í fyrra varð meira en fjögurra milljóna króna tap á rekstrinum og á aðalfundi Skógarorku var ákveðið að loka stöðinni, sem hefði komið illa við hótelið. „Ég fékk hringingu frá Skógarorku í lok mars og mér var tilkynnt það að ætti að loka fyrir heita vatnið hjá mér 10. maí. Stöðin ætti ekki hráefni og gæti ekki kynt og málið væri bara búið,“ segir Þráinn Lárusson, eigandi Hótels Hallormsstaðar.

Hráefnisskortur og mikill kostnaður við útdrátt

Samkvæmt upplýsingum frá Skógarorku blasti við hráefnisskortur og verðhækkun sem hefði gert orku frá stöðinni ósamkeppnishæfa. Skógræktin átti orðið lítið kurlefni á Austurlandi og skógarbændur hefðu þurft að fá hærra verð fyrir grisjunarvið til að það borgaði sig að draga viðinn út og kurla. Málið horfir öðruvísi við nýjum eiganda sem fékk stöðina fyrir lítið; tók yfir skuldir sem voru 4-5 milljónir. „Annaðhvort var að tengja okkur við rafmagn sem er mjög dýrt því við fáum náttúrulega ekki niðurgreiðslu á rafmagni hér, ekki fyrir fyrirtæki, þannig að það varð raunin að ég keypti stöðina og er búinn að tryggja mér allt hráefni þannig að það verður ekkert vandamál,“ segir Þráinn. Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa tveir skógarbændur haft samband við Þráinn og boðið efni í kyndistöðina. Hann íhugar að koma upp framleiðslu á viðarkögglum og segir að eins og sakir standa með gengi krónunnar geti borgað sig að flytja inn slíkt efni.

Telur sig geta fengið meira út úr stöðinni

Aðspurður um hvort það muni ekki geta orðið dýrt að reka kyndistöðina segist hann líka sjá fram á að geta nýtt stöðina betur og fengið meiri orku eða heitt vatn út úr henni fyrir lítinn auka kostnað.  Hann ætli sér að setja vatn í sundlaugina næsta sumar og gera þar útibaðsvæði með heitum pottum. Þá vonist hann til að geta boðið íbúum á Hallormsstað að tengjast veitunni líkt og upphafleg áform um kyndistöðina gerðu ráð fyrir. „Við verðum búnir að tryggja okkur það vel, komnir með varaafl og nóg efni og þá getum við boðið orku á mun hagstæðara verði heldur en að íbúarnir eru að fá í dag,“ segir Þráinn.
banner4