Fréttir

07.06.2017

Þinteppi tekur að myndast

Þétt sjálfsáning fjallaþins í Þjórsárdal

  • Vísir að þinteppi í Þjórsárdal. Í þinskógum sáir þinurinn sér í þéttar breiður í skógarbotni og nýgræðingurinn bíður þess að geta vaxið upp þegar eldri tré falla.

Fólk sem farið hefur víða og skoðað skóga veit að gróður í skógarbotnum er afar misjafn. Fer það eftir trjátegundum,  ásamt aldri og þéttleika skógarins. Í mjög þéttum skógum er gjarnan lauf- eða nálalag í skógarbotninum og lítið um plöntur, en mikið um sveppi hins vegar. Oft eru skuggþolnir mosar ríkjandi í þéttum skógum, byrkningar þar sem meiri birta er og háplöntur í þeim skógum sem hleypa mestu ljósi niður í gegnum laufkrónur trjánna.

Stundum er það ungviði trjánna sjálfra sem myndar stóran hluta botngróðursins og þannig er gjarnan í sumum þinskógum. Þinfræ eru stór og þung, ydd í endann og án teljandi vængja. Þau falla því beint niður úr trjánum og stinga sér niður í mosa- eða nálalagið. Þinir eru líka skuggþolnir í æsku og geta ungplöntur því lifað í dimmum skógarbotni árum saman.

Það er skemmtileg upplifun að koma í þétta balsamþinskóga Nýfundnalands eða fjallaþinskóga í Klettafjöllum og sjá að þeir eru teppalagðir. Teppið myndar urmull ungplantna þinsins sem allar eru 5-10 cm háar. Þarna bíða þær eftir tækifærum sem skapast þegar stök tré falla eða jafnvel að heilu skógarnir verði fyrir skordýrafaraldri og birta kemst niður á skógarbotninn. Næsta kynslóð skógarins er sem sagt tilbúin að taka við áður en sú fyrri fellur frá.   

Fjallaþinur hefur verið ræktaður á Íslandi í rúma öld en reyndar eru aðeins örfá tré svo gömul. Fjallaþinsskógar voru gróðursettir á nokkrum stöðum um og eftir miðja síðustu öld og eru trén nú farin að þroska fræ nokkuð reglulega. Vitað hefur verið um sjálfsáningu fjallaþins en ekki hefur þó sést vísir að teppamyndun fyrr en nú.

Myndin sem hér fylgir var tekin í Þjórsárdal í síðustu viku og sýnir nokkuð þétta sjálfsáningu fjallaþins með fram göngustíg. Með árunum á þetta væntanlega eftir að aukast, enda ekki ástæða til að ætla annað en að hér verði svipuð forendurnýjun fjallaþins og á heimaslóðum tegundarinnar.  

Texti og mynd: Þröstur Eysteinsson
banner4