Fréttir

24.05.2017

Sumarið fer vel af stað í Hekluskógum

Útlit fyrir mikið birkifræ í haust ef fram fer sem horfir

  • Fótboltastrákar frá Selfossi sem gróðursettu sunnan við Sultartangalón um helgina. Mynd af vef Hekluskóga.

Birki blómgast sem aldrei fyrr í Heklu­skóg­um og má búast við miklu fræi í haust ef það nær að þroskast. Frá þessu segir í nýrri frétt á vef Hekluskóga. Vel hafi gengið að gróðursetja og landeigendur og verk­takar unnið hörðum höndum að gróður­setningu víða um svæðið enda skilyrði til gróðursetningar með besta móti og jörð frostlaus langt inn til fjalla.

Margir hópar komu að gróðursetja á Heklu­skógasvæðinu í yndislegu veðri helgina 20.-21. maí. Laugardaginn komu fótbolta­strákar frá Selfossi ásamt foreldrum og sömuleiðis hópar til uppgræðslu og gróður­setningar í svokallaða Mótorhjólaskóga. Hóparnir sem komið hafa að verkefninu Mótorhjólaskógar eru BMW Ísland, Skutlur, Gaflarar, H.O.G. Chapter Iceland (Harley Davidson) sem hafa unnið á svæðinu einn dag á ári frá árinu 2012 og Slóðavinir frá árinu 2009.  Skutlurnar sýndu góða takta í gróðursetningu að því er segir í frétt Hekluskóga og svo fór að engar plöntur voru eftir fyrir Slóðavini sem unnið hafa að uppgræðslu og birkirækt í Vaðöldu, norðan við svæði Mótorhjóla­skóganna. Með fréttinni fylgir myndband sem Kristján Gíslason gerði af gróðursetningu BMW-liðsins.

2017.05.20 Planting for Future

Sunnudaginn 21. maí kom svo annar stór hópur fótboltadrengja frá Selfossi ásamt foreldrum, auk hóps fimleika­stúlkna og foreldra frá Hveragerði. Alls gróðursettu þessir hópar um 35 þúsund plöntur og báru á.

Á vef sínum þakka Hekluskógar þessu öfluga fólki fyrir frábæra helgi með hvatningarorðunum: „Græðum Ísland með góðu fólki!“
banner4