Fréttir

10.03.2017

Stefnumótandi áætlun um meðferð skóga á Þingvöllum

Skógræktin sér um alla trjáfellingu sem ákveðin verður

  • Hér sést til Valhallarreitsins til austsuðausturs af útsýnispalli á Hakinu. Þingvallabærinn er lengst til vinstri og til hægri sést Þingvallavatn.

Fyrir liggur samkomulag milli Skógræktar­innar og Þingvallaþjóðgarðs um meðferð skóga og trjálunda í þjóðgarðinum. Ekkert hefur verið ákveðið um að fella skuli öll greni­tré í nágrenni Valhallarreitsins. Starfs­hópur verður skipaður sem vinni stefnu­mót­andi áætlun um þessi efni.

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri og Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður hafa rætt þessi mál að undanförnu og nýlega fór Hreinn Óskarsson, sviðstjóri sam­hæfingarsviðs Skógræktarinnar, í vettvangs­könnun á Þingvelli. Ljóst er að grisjunar er þörf á trjágróðri við umræddan sumarbústað. Sömuleiðis kann að þurfa að fella þar tré sem taka að byrgja sýn af útsýnis­palli á Hakinu á komandi árum.

Eitthvað er um að tré hafi brotnað eða rótfallið í roki á síðustu árum aðallega sunnan megin í reitnum, enda stendur reiturinn áveðurs fyrir flestum áttum nema vestanátt. Er ljóst að tré munu halda áfram að falla í reitnum t.d. ofan til í honum þar sem jarðvegur er grunnur.

Skógræktin og þjóðgarðurinn samstíga

Í gildi er samningur á milli Þingvallaþjóð­garðs og Skógræktarinnar um meðferð skóganna á Þingvöllum. Á grundvelli hans eru endanlegar ákvarðanir teknar um grisjun skóga og aðrar trjáfellingar. Auk almennrar stefnu um vernd þinghelginnar er einnig stefna og samráð milli stofnan­anna um einstakar framkvæmdir sem taka mið af fjölbreyttum þörfum, t.d. upp­bygg­ingu vegna sífellt meiri fjölda ferðafólks og verndar trjáa og skóga. Nákvæmlega hvað verði gert á umræddri sumarhúsalóð, eða hvenær, liggur ekki endanlega fyrir en full­trúar Þingvallaþjóðgarðs og Skóg­ræktar­inn­ar eru byrjaðir að ræða það. Reynt verður að finna viðunandi lausn sem tekur tillit til hagsmuna allra. Af hálfu þjóðgarðsins kemur jafnvel til greina að sumar­hús­ið standi áfram og það verði nýtt fyrir nemendahópa sem koma í fræðsluferðir á Þingvelli.

Horft til reitsins úr suðvestri.

Þá liggur einnig fyrir samkomulag um að Skógræktin og Þingvallaþjóðgarður skuli vinna saman að stefnumótandi áætlun um meðferð skóga og trjáa í þjóðgarðinum. Starfshópur verður skipaður til að vinna þetta verk. Ljóst er því að ekki er ástæða til að hafa áhyggjur af trjágróðri í Þingvalla­þjóðgarði að sinni eins og þær sem lesandi Morgunblaðsins viðraði í Velvakanda í gær og vitnað var til hér á skogur.is. Gott sam­starf er milli Skógræktarinnar og Þing­valla­þjóðgarðs um þessi mál.

Skógvernd í þjóðgarðinum

Að ýmsu þarf að huga þegar trjágróður í Þingvallaþjóðgarði er annars vegar. Trjágróður í þjóðgarðinum er að lang­mestu leyti birkikjarr og eitt meginhlutverk Skógræktarinnar hefur verið í rúma öld að vinna að verndun og útbreiðslu íslenska birkisins. Á svæði eins og Þingvallaþjóðgarði þarf að huga að því hvað gerist ef mikill birkidauði verður skyndi­lega á svæðinu og hvernig bregðast skuli við því. Eins þarf að vera samkomulag um hvað skuli gerast ef barr­trén í þjóðgarðinum taka að dreifa sér mikið.

Loftmynd af svæðinu. Reiturinn sem rætt er um er markaðaður með gulum ramma á myndinni.

Trén á lóð sumarhússins

Í vettvangsferð Hreins Óskarssonar sem farin var fimmtudaginn 23. febrúar litu þeir Einar Á.E. Sæmundsen, fræðslufulltrúi þjóð­garðsins, á trén á sumar­húsa­lóðinni umræddu. Lóðin er 0,7 ha að stærð. Þjóð­garðurinn keypti sumarhúsið sjálft á síð­asta ári en trén gróðursettu leigjendur lóð­ar­innar upp úr miðri 20. öld. Lóðin er suð­vestan við Valhallarreitinn og í suðaustur­átt frá útsýnispalli á Hakinu.

Í trjálundinum er sitkagreni, alaskaösp, stafa­fura, reyniviðir og birki áberandi. Sitka­grenið er í þéttum lundum og algengt að 1 m sé milli trjáa í þyrpingum. Hæstu trén eru um og yfir 20 m há og flest yfir 15 m nema uppi í klettum undir gjár­brúninni. Ljóst er að grisja þarf lundinn, segir Hreinn, bæði til að opna fyrir birtu að bústaðnum sem stendur í lund­in­um og til að draga úr hættu á að tré falli á bústaðinn í stórviðrum. Var rætt að Skógræktin myndi velja þau tré sem skyldi fella og að þess yrði gætt að skilin yrðu eftir tré sem líkleg væru til að þola vindálag. Enn fremur var rætt að þjóðgarðurinn myndi greiða vinnu verktaka við trjáfellinguna.

Reiturinn séður í víðmynd úr suðaustri.

Timbrið verði nýtt í þjóðgarðinum

Skógræktin hefur um árabil leitast við að nýta trjávið úr eigin skógum við gerð stígamannvirkja í skógunum. Leggur Hreinn til að þjóðgarðurinn hugi að því hvernig nýta megi efnið sem fellur til í þjóðgarðinum og segir hann að vel hafi verið tekið í það. Innan 10-20 ára munu hæstu trén við bústaðinn vaxa upp í þá hæð að þau fara að skyggja á útsýni af útsýnispalli á Hakinu. Því er ljóst að fella þarf hæstu tré á næstu árum eigi að viðhalda því útsýni.

Til nánari glöggvunar á samstarfi Þingvallaþjóðgarðs og Skógræktarinnar fylgir hér samstarfsyfirlýsing sem Þingvalla­nefnd og Skógrækt ríkisins gerðu. Björn Bjarnason, þáverandi formaður Þingvallanefndar, og Jón Loftsson, þáver­andi skógræktarstjóri undirrituðu yfirlýsinguna  8. ágúst 1999. Einnig er hér til fróðleiks skjal um þá grisjun sem Skóg­ræktin hefur unnið að í Hrafnagjárhalli 2001-2012. Sá skógarreitur er við Hrafnagjá við norðausturenda Þingvalla­vatns.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Hreinn Óskarsson

banner4