Fréttir

09.03.2017

Grenitrjám á Þingvöllum beðið griða í Velvakanda

Bæti, breyti og fegri ásýnd landsins

Stuttur pistill með undirskriftinni „Ragn­heiður“ birtist í dag í Velvakanda Morgun­blaðsins þar sem vakin er athygli á þeirri stefnu Þingvallanefndar og þjóðgarðs­varðar að fella grenitré í grennd við blettinn þar sem Hótel Valhöll stóð. Tíunduð er gagnsemi nokkurra plöntutegunda sem sýnt hafi ótrúlega aðlögunarhæfni á Íslandi og bæti, breyti og fegri ásýnd landsins.

Pistillinn ber fyrirsögnina Grenitré í hættu og er á þessa leið:


Það er furðulegt að í einu af harðbýlustu löndum á byggðu bóli heimsins sé fólk sem hagar sér eins og gróður­rasistar gagnvart þeim plönt­um sem hafa sýnt ótrúlega aðlögunarhæfni í erfiðri veðráttu Íslands. Sitkagrenið, öspin og lúpínan, þessir góðu nýbúar Íslands, sem eru í hættu vegna gróðurrasistanna, eru langt komin með að bæta, breyta og fegra ásýnd Íslands. Einnig draga þessar plöntur úr mengun og veita skjól í vindasömu loftslagi. Nú ætla Þingvallanefnd og þjóðgarðsvörður að fella fleiri grenitré við Valhallarreitinn, jú vegna þess að trén hafi slæm sjónræn áhrif og einnig að til þess að komast á heimsminjaskrá SÞ sé þess krafist að grenitrján­um verði eytt. Þessi krafa hefur reynst ósönn.

Ragnheiður.
banner3