Fréttir

23.02.2017

Skógræktarstarf auglýst

Verkefnastjóri garðyrkju og skógræktar í Mosfellsbæ

Mosfellsbær auglýsir laust til umsóknar starf verkefnastjóra garð­yrkju og skógræktar í þjónustustöð sveitarfélagsins. Starfs­maðurinn á m.a. að hafa umsjón með skógræktar­verkefnum í samstarfi við Skógræktarfélag Mosfellsbæjar.

Starfið er auglýst á vef sveitarfélagsins en umsóknarfrestur rennur út á laugardag, 25. febrúar. Þjónustustöð heyrir undir umhverfissvið Mosfellsbæjar og sér um alla almenna þjónustu við bæjarbúa á sviði tækni og umhverfismála, auk viðhalds og reksturs umferðarmannvirkja og opinna svæða.

Starfið felur í sér umsjón garðyrkjustarfa sem starfsmaður garðyrkjudeildar og umsjón með skógræktarverkefnum í samstarfi við Skógræktarfélag Mosfellsbæjar. Starfsmaður vinnur undir stjórn fagstjóra garðyrkju. Verkefni eru meðal annars umsjón sumarstarfsfólks garðyrkjudeildar, áætlanagerð og forgangsröðun verkefna, dagleg samskipti við flokk­stjóra og starfsmenn garðyrkjudeildar auk þess að forgangsraða og útdeila verkefnum til flokkstjóra og fylgir þeim eftir. Starfsmaður er jafnframt helsti tengiliður við Skógræktarfélag Mosfellsbæjar. Þetta er fullt starf. Á vef sveitarfélagsins segir að Mosfellsbær er öflugt og framsækið sveitarfélag þar sem gildin virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja eru leiðarljós starfsmanna í daglegu starfi.


Menntunar- og hæfnikröfur:
  • Menntun á sviði garðyrkju, skógfræði eða tengdum greinum er skilyrði
  • Reynsla af garðyrkju- eða skógræktarstörfum er kostur
  • Vinnuvélaréttindi eru kostur
  • Færni í teymisvinnu og hæfileiki til að vinna með ungmennum er skilyrði
  • Góð almenn kunnátta á tölvuforritum tengdum starfi
  • Góðir samskiptahæfileikar, nákvæmni og samviskusemi er skilyrði

Umsóknarfrestur er til 25. febrúar 2017. 

Umsóknir ásamt starfsferilsskrá og kynningarbréfi sem greinir frá reynslu, menntun og fyrri störfum ásamt rök­stuðn­ingi fyrir hæfni í starfið skulu berast á netfangið mos@mos.is. Nánari upplýsingar um starfið er að finna á heimasíðu Mosfellsbæjar en auk þess veitir Bjarni Ásgeirsson, upplýsingar í síma 525 6700. 

Tekið er fram að um framtíðarstarf er að ræða og að öllum umsóknum verði svarað, laun séu samkvæmt kjara­samn­ingi Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðkomandi stéttarfélags og sveitarfélagið hvetji fólk af báðum kynjum til að sækja um starfið.
banner5