Fréttir

11.01.2017

Áhugaverð námskeið fram undan

Trjáfellingar, grisjun, viðarnytjar

  • Áhugasamir nemendur reyna sig við öruggu hnífsbrögðin

Ástæða er til að vekja athygli á nokkrum námskeiðum sem eru á dagskrá Endurmenntunar Landbúnaðarháskóla Íslands á næstu vikum og mánuðum og gætu freistað skógræktarfólks og áhugafólks um viðarnytjar.

Tvö námskeið um notkun og viðhald keðjusagar eru á dagskránni, það fyrra verður seinna í janúarmánuði á Reykjum í Ölfusi og það síðara á Hólum í Hjaltadal í lok apríl. Kennd verður trjáfelling og grisjun með keðjusög, farið yfir öryggisatriði, viðhald keðjusagar og smærri viðgerðir og fleira. Kennsla er bæði bókleg og verkleg.

Hin sívinsælu námskeið Húsgagnagerð I og II verða haldin á Snæfoksstöðum í Grímsnesi í marsmánuði. Þessi námskeið hafa þróast upp úr námskeiðinu Lesið í skóginn tálgað í tré sem hefur verið kennt í frá árinu 2001 og notið mikilla vinsælda. Kennd er nýting grisjunarefnis, eiginleikar viðartegunda og nýting, smíði kolla og bekkja, samsetning á fersku og þurru efni, yfirborðsmeðferð og fúavörn ásamt fleiru.

Rétt vinnubrögð við skógarhögg og grisjun eru mikilvæg, bæði til að árangurinn verði sem bestur og til að öryggis sé gætt við störfin. Enginn skyldi nota keðjusög nema vera í fullum keðjusagarklæðum og hafa sótt námskeið.

Framhaldsnámskeiðið Húsgagnagerð II hefur verið kennt í frá árinu 2009 og einnig notið mikilla vinsælda. Þar er kafað dýpra í viðfangsefnið og læra þátttakendur að sækja sér efni í skóg til að útbúa greinahaldara, dýr og húsgögn. Fjallað er meðal annars um umhirðu og viðargæði trjágróðurs, eiginleika og galla einstakra íslenskra viðartegunda og yfirborðsmeðhöndlun eða viðarvörn inni- og útihúsgagna.

Loks má nefna námskeiðið Tálgun 1, ferskar viðarnytjar sem fram fer á Hólum í Hjaltadal um mánaðamótin mars-apríl. Á námskeiðinu lærir fólk öruggu hnífsbrögðin sem auka afköst og öryggi í tálgun með hníf og exi.

Nánar um námskeiðin á viðburðasíðu Skógræktarinnar og vef Endurmenntunar LbhÍ.

Texti: Pétur Halldórsson
banner5