Fréttir

10.01.2017

Fræg risafura með göngum í gegn féll í ofviðri

Talið líklegt að göngin hafi veikt tréð og ráðið örlögum þess

  • Göngufólk á leið gegnum tréð sumarið 2015. Mynd: Wikimedia Commons - Erlend Haddeland.

Heimsfræg risafura í Calaveras Big Trees State Park í Kaliforníu féll á sunnudag í ofviðri. Göng voru gerð í gegnum tréð á níunda áratug nítjándu aldar og er talið líklegast að gangagröfturinn á sínum tíma hafi valdið trénu varanlegum skaða og ráðið örlögum þess.

Tréð er af tegundinni Sequoiadendron giganteum sem kölluð er risafura á ís­lensku þótt ekki sé hún af furuættkvíslinni. Tré af þessari tegund verða allra trjáa stærst. Tréð í Calaveras-þjóðgarðinum var ekki það fyrsta sem göng voru gerð gegn­um en frést hafði af vinsældum slíks trés annars staðar og því voru þessi göng grafin. Síðar meir var bílum leyft að aka þar í gegn. 

Stórviðri gekk yfir Kaliforníu sunnudaginn 8. janúar og götótta tréð stóðst það ekki. Á fréttavef Huffington Post er haft eftir Joan Allday, sjálfboðaliða í þjóðgarðinum, að tréð hafi verið orðið lélegt og líflítið. Ekki er vitað nákvæmlega hversu gamalt það var en önnur tré sömu tegundar í þjóðgarðinum eru meira en 1200 ára gömul. Þvermál trésins sem féll var 9,75 metrar og jafnvel áður en göngin voru grafin í gegnum það var vinsælt að láta taka þar ljósmyndir af sér. Risafurur geta orðið allt að 3000 ára gamlar.

Að því er sagt er frá á sameiginlegum vef bandarískra þjóðgarða, OhRanger.com, voru göngin grafin gegnum tréð á níunda áratug nítjándu aldar til að það gæti keppt um athygli við sambærilegt tré í Yosemite-þjóðgarðinum sem þá þegar var orðinn vinsæll áfangastaður ferðafólks. Á þessum tíma stóð það á landi í einkaeigu. Sagt er að tréð hafi verið valið upphaflega vegna þess að á því var stórt ör eftir skógareld en með gangagerðinni voru gerð varanleg spjöll á trénu sem talin eru hafa ráðið úrslitum um að það stóðst ekki storminn á sunnudag. Tréð stóð ekki lengur undir toppvexti og við hlið þess mátti sjá topp sem fallið hafði af því.

Heimild: Huffington Post
Íslenskur texti: Pétur Halldórsson
banner1