Fréttir

09.01.2017

Hrönn tekur við Hekluskógum

Fyrsti fundur framkvæmdaráðs Skógræktarinnar á nýju ári

  • Blandaður íslenskur skógur í vetrarbúningi.

Hrönn Guðmundsdóttir tekur við starfi framkvæmdastjóra Hekluskóga af Hreini Óskarssyni sem nú gegnir starfi sviðstjóra samhæfingarsviðs Skógræktar­innar. Þetta kom fram á fundi framkvæmdaráðs Skóg­ræktarinnar á föstudag. Á fundinum var rætt um vinnu við fjárhagsáætlanagerð hjá Skóg­rækt­inni, vinnu að landsáætlun í skógrækt sem er að hefjast og fleiri mál. Starfsmanna­fundur alls starfsfólks Skóg­ræktarinnar verður haldinn á Akureyri í apríl.

Starfshlutfall Hrannar hjá Hekluskógum verður 30% en hún starfar áfram sem framkvæmdastjóri Landssamtaka skógareigenda í 70% stöðu. Á fund­inum á föstudag ræddi framkvæmdaráðið líka mögu­lega skógrækt á uppgræddum svæðum í Þingeyjar­sýslum sem Land­græðslan vill efna til samstarfs við Skóg­ræktina um og sömuleiðis um Þorláksskóga á Hafnarsandi í Ölfusi sem eru í undirbúningi. Fundir eru ráðgerðir á næstunni um bæði þessi efni með Land­græðslunni og fleirum.

Fjárhagsáætlanagerð var fyrirferðarmikil á fundinum enda er nú hafið fyrsta heila starfsár Skógræktarinnar. Um ára­mótin lauk síðasta fjárhagsári stofnananna sem sameinuðust 1. júlí 2016 en nú skiptist áætlunin eftir hin­um fjórum sviðum Skógræktarinnar, rekstrarsviði, rannsóknasviði, samhæfingarsviði og skógarauðlinda­sviði. Skógræktar­ráð­gjaf­ar sem sinna þjónustu og samskiptum við skógarbændur gera nú áætlanir fyrir lands­hlut­ana og verður einna mest breyting í þessum efnum hjá þeim af starsfólki Skógræktarinnar.

Vinna er að hefjast við landsáætlun í skógrækt og er áhugi á því að efna til norræns samstarfs í tengslum við það. Þá ræddi framkvæmdaráðið um fræmál Skógræktarinnar sem fundað verður um á næstunni, áfram­hald­andi andlits­lyft­ingu stofnunarinnar með endurbótum á húsum, merkingum o.fl., Stefnt er að því að halda starfs­mannafund allra starfs­­manna Skógræktarinnar seinni hluta aprílmánaðar. Fundurinn verður á Akureyri.

Hér að neðan er útdráttur úr fundargerð með nánari upplýsingum um það sem rætt var á fundi framkvæmdaráðs.

Íslenskur skógur í janúar 2017.

Framkvæmdaráð Skógræktarinnar

Fundur 6. janúar 2017 kl. 9-12.30

1. Fjárhagsáætlun – skipting fjármuna

Nú þarf að verða til fjárhagsáætlun í smærri atriðum fyrir stofnunina. Grunn­ur­inn verður fjárhags­áætlunin fyrir 2016. Áætlun er langt komin fyrir öll sviðin nema samhæfingar­svið en hún verður unnin á næstunni. Mesta breytingin er hjá skóg­ræktar­ráðgjöfunum sem nú þurfa að taka saman áætlun, hver fyrir sinn landshluta. Þar þarf að þróa vinnulagið. Svipað má segja um samhæfingarsviðið.

2. Hekluskógar/Þorláksskógar/Þingskógar

Til stendur að ganga frá samningi við Hrönn Guðmundsdóttur um 30% starf framkvæmdastjóra Heklu­skóga sem hún sinni með 70% starfi sínu hjá LSE. Fundur um Hekluskógamál verður á næstu dögum og sömu­leiðis fundur um Þorláksskóga. Rætt hefur verið við Böðvar um að hann vinni að áætlana- og kortagerð vegna Þorláksskóga ásamt Aðalsteini f.h. Skógræktarinnar. Nokkur landgræðslusvæði eru í Þingeyjarsýslum sem Landgræðslan vill efna til skógræktar á í samvinnu við Skógræktina. Rúnar á Vöglum hefur tekið að sér að vera tengiliður í því verkefni.

3. Hefja vinnu við landsáætlun í skógrækt

Fyrstu skrefin verða að gera verkáætlun um hvað gera þurfi. Hreinn, Aðalsteinn og Þröstur funda væntanlega við ráðuneytisfólk um það á næstunni. Hreinn hyggst hafa samband við Torfa Jóhannesson hjá norrænu ráðherra­nefndinni og ræða hvort setja megi saman norrænan hóp um þessi efni sem gæti verið stuðningur við þessa vinnu á Íslandi. Landshlutaáætlanir þurfa að ríma saman við landsáætlunina og þarna kemur inn samstarf og samráð við sveitarfélögin. Skipulagsstofnun þarf líka að vera með í ráðum auk fleiri aðila. Það gagnlegasta sem kemur út úr þessari vinnu er sjálft samráðsferlið og allt sem því fylgir, að tekið sé á ágreiningsmálum, tortryggni eytt o.s.frv.

4. Verkefnaskýrsla/áætlun Mógilsár og 28 milljónirnar

Engin breyting er á þeim peningum sem koma gegnum atvinnuvegaráðuneytið. Við þurfum að skila inn skýrslu um verkefni síðasta árs og verkefnaáætlun fyrir þetta ár. Annað mál er að ræða við nýjan ráðherra um að þetta verði flutt aftur til Skógræktarinnar.

5. Kynbætur og fræmál – fundur

Samþykkt var að Brynjari og Valgerði yrði falið að skipuleggja fund um kynbóta- og fræmál. Aðalsteinn benti á að í sambandi við þetta mætti huga að því hvar skórinn kreppi í þessum efnum, hvað sé til af fræi og öðru fjölgunarefni og hvað vanti.

6. Verkefni, verkefnaáætlanir og vinna með verktökum

Innleitt hefur verið á Mógilsá og í bókhaldi að menn séu meðvitaðir um kostnað sem hlýst af ýmsum verk­efn­um. Fólk gerir því sínar eigin áætlanir. Skógræktin vill halda áfram á þessari braut og nú þarf þetta að fara að ná til fleiri starfs­manna en á Mógilsá. Skógarverðir eru vanir að gera sínar áætlanir en ekki endilega ráð­gjafarnir.  

Edda ræddi að e.t.v. gæti verið rétt að búa til miðlæga Excel-töflu þar sem áætlanir væru settar inn þannig að starfs­menn gætu séð hversu mikið væri gert ráð fyrir þeim í hverju verkefni fyrir sig, skoðað tímaáætlanir o.s.frv. Edda ætlar að setja upp hugmynd að slíkum grunni á Mógilsá til að byrja með. Hún sendir líka út tíma­skráningar­form til svið­stjór­anna með verkefnanúmerum. Nokkur númer vantar enn. Einnig þarf að senda til starfsfólks leiðbeiningar og fyrirmæli um yfirvinnu, frí á móti yfirvinnu, reglur um sveigjanlegan vinnutíma, viðveru o.s.frv. Gulli setur meginreglurnar á blað og sendir út.

Góð venja hefur skapast sums staðar í stofnuninni um vinnu verktaka en í öðrum tilvikum er ástandið ekki jafn­gott. Góðar venjur hafa t.d. skapast við „bilun“ á Héraði með góðu fyrir fram skipulagi, eftirfylgni og útektum. Það má nota sem fyrirmynd. Þetta verður rætt á skógarvarðafundinum 10. janúar en getur snúið að fleirum innan stofn­un­ar. Þess vegna er meiningin að setja upp verklagsreglur fyrir vinnu með verktökum. Þær þurfa að gilda á öllum sviðum stofnun­ar­innar og um hvers kyns aðkeypt verk og jafnframt um verktakavinnu hjá skógarbændum. Skógræktin á ekki að vera einn af þeim viðskiptavinum verktaka sem þeir komast upp með að hunsa.

7. Áframhaldandi andlitslyfting – helstu verkefni

Hallgrímur hefur fylgt eftir umhverfisstefnu sem sett var fyrir um fjórum árum, farið um landið og skoð­að mann­virki og útlit svæða. Farið hefur verið í nokkra andlitslyftingu á sumum stöðum, tekið til, málað, kofar rifnir og fleira. Halda þarf áfram á þessari braut.

Pétur fær Þór með sér í skiltateymi sem tekur saman hvað þarf að gera í merkingum á starf­stöðvum og skógum til að uppfæra. Útbúa þarf fána og merkja bíla. Pétur kannar málið og pantar lím­miða á núverandi bíla en svo verður hugað að meira áberandi merkingum og hugsanlega litum á nýjum bílum sem keyptir verða.

8. Vinnuhópar vegna USL

USL er samstarfsvettvangur Umhverfisstofnunar, Skógræktarinnar og Landgræðslunnar sem meining­in er að blása nýju lífi í. Stefnt er að tveimur fundum á ári, annars vegar forstöðumannafundi og hins vegar fundi þar sem annað starfs­fólk vinnur saman að skilgreindum verkefnum.

9. Ársritið

Beint til Péturs að vera duglegur að senda út óskir um efni. Þröstur vill setja inn í Árskýrsluna skýrslur skógar­varða, skýrslur landshlutaverkefnanna og skýrslu Mógilsár.

10. Önnur mál

Símanúmeramál eru í endurskoðun. Teknar hafa verið frá númeraraðir en eftir er að ákveða tæknilega út­færslu, hvort við höldum áfram með Símavist eða leggjum áherslu á farsíma, ekki allir sammála um það. Lág­mark að hafa eitt fastlínunúmer á hverri starfstöð, telur Sigga. Gulla falið að finna út úr þessu.

Gerður hefur verið samningur við Loftmyndir ehf. til eins árs um aðgang Skógræktarinnar að loftmyndum til áætlana­gerðar. Björn Traustason mun á næstunni leiðbeina um hvernig menn beri sig að við að nálgast þau gögn.

Senda þarf út til starfsmanna sem gætu þurft að nota StarLeaf að fara inn á starleaf.com, skrá sig þar inn og sækja forritið. Huga þarf að því að halda fræðslufundi í kerfinu sem allir hjá Skógræktinni gætu fylgst með í fundar­her­berg­j­um eða í eigin tölvum ef hitt býðst ekki.

Starfsmannafundur var nefndur og bent á að einna lengst væri síðan starfsmannafundur hefði verið haldinn á Norður­landi. Pétur ræðir við félaga sína á Akureyri um stað og möguleika, athuga með hótel fljótlega eftir páska, gistipláss fyrir um 50 manns.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson
banner4