Fréttir

08.11.2016

Baráttuhópurinn París 1,5 mælir með skógrækt

Vill skýr loftslagsmarkmið í nýjan stjórnarsáttmála

  • Fyrr á þessu ári fór magn koltvísýrings í lofthjúpi jarðar í fyrsta sinn yfir 400 hluta af milljón. Samhliða því að draga úr losun er nauðsynlegt að binda koltvísýring á samningstíma Parísarsamkomulagsins og til þess er skógrækt fljótlegasta og öruggasta leiðin.

Baráttuhópurinn París 1,5 sem berst fyrir því að Íslendingar standi við skuldbindingar sínar vegna Parísarsamkomulagsins skorar á þá stjórnmálaflokka sem mynda munu nýja ríkisstjórn að hafa loftslagsmálin að leiðarljósi. Skógrækt er meðal þeirra mótvægisaðgerða sem hópurinn mælir með.

Hópurinn hefur sent frá sér fréttatilkynningu um málið og segir miklu máli skipta að á nýju kjörtímabili verði unnið að því með öllum tiltækum ráðum að stöðva hlýnun jarðar og þá ógnvænlegu þróun sem blasi við heimsbyggðinni ef ekkert verður að gert. „Tími aðgerða er núna - það má ekki fresta þeim þangað til á næsta kjörtímabil,“ segir orðrétt í fréttatilkynningunni.

Eftirfarandi þætti telja samtökin mikilvægt að verði skýrir í stjórnarsáttmála komandi ríkisstjórnar:

  • Skýr stefna um hvernig á að standa við markmið Parísarsamkomulagsins
  • Tölu- og tímasett markmið um minnkandi losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum, iðnaði og öðrum mengandi þáttum
  • Markmið um notkun skógræktar og endurheimt votlendis sem mótvægisaðgerðir
  • Stefnumótun varðandi notkun hagrænna hvata til að minnka losun
  • Uppbygging innviða fyrir orkuskipti

Þá segir í fréttatilkynningunni að stefna og markmið verðandi stjórnarflokka þurfi að vera skýr frá upphafi, svo hægt sé að taka tillit til hennar í öllum öðrum ákvörðunum t.d. hagsmunaaðila, stofnana, fyrirtækja og einstaklinga.

Íslenskt lerki. Kjarnaviðurinn, sá dökki, er ríkur að trjákvoðu og ýmsum efnum sem gera að verkum að lerkið endist vel utan dyra. Lerki er meðal þeirra trjátegunda sem henta best til nytjaskógræktar á Íslandi og binda mestan koltvísýring. Kynbætur Skógræktarinnar á lerki stuðla að enn meiri afurðum og enn meiri bindingu. Mynd: Pétur Halldórsson.

Loks skorar hópurinn París 1,5 á stjórnvöld að stöðva áform um olíuvinnslu í íslenskri lögsögu til framtíðar. Með starfi sínu vill hópurinn leggja sitt á vogarskálarnar til að meðalhiti á jörðinni hækki ekki um meira en eina og hálfa gráðu.

Skógræktin tekur undir þessi hvatningarorð og bendir á að meðalbinding í skógrækt á Íslandi er 4,4 tonn af koltvísýringi á hektara á hverju ári. Það þýðir að á hverjum hektara ræktaðs skógar er bundinn koltvísýringur sem samsvarar útblæstri tveggja meðalbíla. Á bestu skógræktarsvæðunum binst mun meira en þetta, sérstaklega þar sem ræktaðar eru gjöfulustu tegundirnar, sitkagreni og alaskaösp. Þessar tegundir gefa líka mjög góðan við sem nýta má í staðinn fyrir önnur mengandi hráefni eins og olíu, stál og steinsteypu. Mannvirki úr viði geyma í sér kolefnið svo lengi sem þau standa og vönduð timburhús geta staðið um aldaraðir.

Texti: Pétur Halldórsson

banner1